
Fjölmennur hópur ríkisoddvita kemur saman í München í Bæjaralandi í dag (17. febrúar) á árlegri öryggisráðstefnu sem þar er nú haldin í 59. skipti. Í fyrsta sinn á 20 árum var engum boðið til ráðstefnunnar frá Rússlandi. Að þessu sinni hefst hún á ávarpi sem Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, flytur.
Kamela Harris, varaforseti Bandaríkjanna, verður í forystu bandarísku sendinefndarinnar. Hún flytur ræðu laugardaginn 18. febrúar og í tilefni hennar er þess minnst að í ræðu sinni á ráðstefnunni í fyrra varaði Harris við yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu. Þótti ýmsum sem Bandaríkjastjórn væri of svartsýn í mati sínu á öryggisástandinu á landamærum Úkraínu þá, því miður reyndist matið rétt.
Auk Kamelu Harris sækja Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, ráðstefnuna að þessu sinni.
Í frétt frá Hvíta húsinu í Washington um för Harris til München segir að hún ræði þar á sérstökum hliðarfundum um næstu aðgerðir til stuðnings Úkraínumönnum og til að þrengja enn frekar að Rússum með refsiaðgerðum. Þá hittir Harris einnig forsætisráðherra Finnlands og Svíþjóðar til að árétta enn frekar en gert hefur verið til þessa stuðning Bandaríkjastjórnar við aðild ríkjanna að NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var í Tyrklandi í vikunni og lagði að stjórnvöldum þar að falla frá andstöðu sinni við aðild Finna og Svía að NATO. Ekki er útilokað að Finnar fari í bandalagið á undan Svíum en Sauli Niinistö Finnlandsforseti sagði á dögunum að yrði ekki gengið frá aðild landanna að NATO fyrir ríkisoddvitafund bandalagsins um miðjan júlí kynni málið að taka aðra stefnu. Jafnframt lét hann að því liggja að Bandaríkjamenn yrðu að láta sig málið varða í tvíhliða samskiptum sínum við Tyrki.
Talið er að ríkisoddvitar frá um 40 löndum sæki ráðstefnuna í München að þessu sinni auk annarra stjórnmálamanna og sérfræðinga í varnar- og öryggismálum frá tæplega 100 löndum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er meðal ráðstefnugesta.
Ráðstefnan í München hófst upphaflega árið 1963 sem tvíhliða fundur Bandaríkjamanna og Þjóðverja til að stilla saman strengi á sviði öryggismála gagnvart hættu af Sovétmönnum í kalda stríðinu. Rússar urðu gjaldgengir þar eftir fall kommúnismans í Evrópu.
Vladimir Pútin sótti ráðstefnuna og sem forseti Rússlands árið 2007 flutti hann ræðu í München sem síðan er gjarnan litið til sem fyrstu skýru vísbendingarinnar um að hann vildi ekki sætta sig við „einpóla“ ástand á alþjóðavettvangi þar sem Bandaríkjastjórn ætti síðasta orðið. Krafðist hann að tekið yrði ríkara tillit til Rússa og stórveldisstöðu þeirra.
Í forsetatíð Donalds Trumps þegar kulda hans gætti í garð NATO, ESB og ýmissa Evrópuríkja notuðu bandarískir þingmenn ráðstefnuna í München sem vettvang til að lýsa vantrausti á þennan þátt í málflutningi forsetans.