Home / Fréttir / Úkraínher stefnir að Azovhafi – ætlar að kljúfa hernámssvæði Rússa

Úkraínher stefnir að Azovhafi – ætlar að kljúfa hernámssvæði Rússa

Þetta kort birti The New York Times föstudaginn 28. júlí 2023 til að lýsa gagnsókn Úkraínuhers.

Markmið gagnsóknar Úkraínuhers í suðri er skýrt: Að komast að Azovhafi og reka fleyg í gegnum hernámssvæði Rússa.

Í framkvæmd hefur þetta reynst erfitt: Hermenn Úkraínu verða að brjótast í gegnum þéttriðin jarðsprengjusvæði, skriðdrekagildrur og aðrar hindranir undir árásum úr lofti og með stórskotavopnum úr fjarlægð. Rússar hafa komið sér fyrir á mörgum varnarlínum á tæplega 100 km leið til sjávar.

Herstjórn Úkraínu sagði fimmtudaginn 27. júlí að liðsmenn hennar sæktu fram  á tveimur stöðum í suðurhluta Úkraínu, í áttina að bæjunum Melitopol og Berdiansk. Þá sagði herstjórnin að í austri hefðu úkraínskir hermenn náð þorpinu Staromaiorske í Donetsk-héraði á sitt vald.

Fyrr þennan sama fimmtudag viðurkenndi Vladimir Pútín Rússlandsforseti að árásir hefðu aukist „umtalsvert“ í suðurhluta Úkraínu. Hann fullyrti jafnframt að Rússar hefðu hrundið mörgum árásum og að Úkraínumenn hefðu orðið illa úti.

Fyrr í vikunni sögðu bandarískir embættismenn að Úkraínumenn hefðu hafið gagnsókn sína af mestum þunga á Zaporizhzhia-svæðinu með þúsundum hermanna sem nýlega hefðu fengið vestræn vopn.

Komist Úkraínuher að Azovhafi klýfur hann hernumda svæði Rússa í tvennt, heggur á landveg frá Rússlandi til Krímskaga og þrengir mjög að birgðaflutningum til rússneskra hermanna lengra í vestri.

Upphaf þessarar sóknar tafðist vegna þess að Úkraínumenn unnu að því að vígbúast með vestrænum vopnum og þjálfa hermenn sína til að beita þeim. Rússar notuðu tímann til að styrkja varnarlínur sínar.

Í anda orðtaksins um að fall sé fararheill átti Úkraínuher mjög undir högg að sækja á fyrstu tveimur vikum aðgerðanna. Komst hann aðeins um 10 km af þeim 100 km sem hann þarf að fara til komast til sjávar.

Úkraínska herstjórnin ákvað þá að gera hlé á sókninni og beitti afli sínu frekar til að þreyta rússnesku hermennina með fallbyssuskothríð og flugskeytaárásum en sækja inn á jarðsprengjubelti óvinarins.

Dögum saman hefur her Úkraínu sent frá sér tilkynningar um fjölmargar árásir á stjórnstöðvar Rússa, skotfærageymslur, bækistöðvar hermanna, loftvarnakerfi, skotpalla fyrir flugskeyti og birgðaflutningatæki.

 

Heimild: The New York Times.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …