Home / Fréttir / Úkraína: Þjóðhetja laus úr rússnesku fangelsi

Úkraína: Þjóðhetja laus úr rússnesku fangelsi

Nadja Savstjenkó
Nadja Savstjenkó

Úkraínumenn fögnuðu síðdegis miðvikudaginn 25. maí heimkomu Nadju Savstjenkó flugmanns sem dæmd var af Rússum og sat í fangelsi í Rússlandi. Var heimkoma hennar tryggð í skiptum fyrir tvo Rússa sem voru í haldi í Úkraínu, dæmdir fyrir að berjast með aðskilnaðarsinnum.

Við heimkomuna flutti Savstjenkó tilfinningaþrungna ræðu og sagðist fús til að berjast og falla fyrir ættjörð sína. Hún gæti ekki lífgað hina látnu en sjálf væri hún tilbúin til að falla á vígvellinum og hún mundi leggja allt í sölurnar til að frelsa þá sem enn sætu í fangelsum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði að „mannúðarsjónarmið“ hefðu ráðið mestu þegar ákveðið var að sleppa Savstjenkó. Þetta kynni auk þess að draga úr spennu milli stjórnar Úkraínu og aðskilnaðarsinna.

Rússar neita aðild að baráttu aðskilnaðarsinna og ekki var efnt til neinnar opinberrar athafnar í Rússlandi vegna heimkomu Rússanna tveggja sem voru handteknir í fyrra.

Savstjenkó var dæmd í 22 ára fangelsisvist í fyrra fyrir hlutdeild í morðum á tveimur rússneskum blaðamönnum í austurhluta Úkraínu. Hún neitaði allri aðild að málinu. Við málaferlin varð hún að þjóðhetju heima fyrir vegna framgöngu sinnar.

Skoða einnig

Þýska stjórnin með pólska skriðdrekabeiðni í fanginu

Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði þriðjudaginn 24. janúar að pólska ríkisstjórnin hefði sent formlegt erindi …