Home / Fréttir / Úkraína: Rússar nú með 190.000 hermenn í umsátursliðinu

Úkraína: Rússar nú með 190.000 hermenn í umsátursliðinu

Nú er það mat sérfróðra að Rússar hafi safnað milli 169.000-190.000 manna herliði við og nálægt Úkraínu í samanburði við um 100.000 manns 30. janúar 2022. Þetta kom fram í ræðu sem Michael Carpenter, sendiherra Bandaríkjanna hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), flutti á fundi fastaráðs stofnunarinnar í Vínarborg föstudaginn 18. febrúar.

Þegar þessar tölur eru nefndar er litið til fjölda hermanna við landamæri Úkraínu, í Hvíta-Rússlandi og á hernámssvæði Rússa á Krímskaga, rússneskra þjóðvarðliða og öryggislögreglu auk herafla undir stjórn Rússa í austurhluta Úkraínu.

Sendiherrann minnti á að Rússar hefðu reynt að gera sem minnst úr fjölda landhermanna og umsvifum flughers síns í blekkingarskyni. Rússneska herstjórnin hefði hins vegar skýrt frá víðtækum flotaæfingum á Svartahafi, Eystrasalti og norðurslóðum. Opinberlega segi Rússar að meira en 30 skip taki þátt í flotaæfingu þeirra á Svartahafi, þar á meðal landgönguskip úr Norður- og Eystrasaltsflotunum.

Bandaríski sendiherrann sagði þetta umfangsmesta herútkall og vígvæðingu í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann sagði athyglisvert að Rússar sendu ekki fulltrúa á þennan fund ÖSE og þeir neituðu að upplýsa nokkuð um þessa einstæðu hervæðingu. Þvert á móti segðu þeir það „ögrun“ þegar beðið væri um skýringar af þeirra hálfu í samræmi við ÖSE-samþykktir sem þeir hefðu staðfest af fúsum og frjálsum vilja.

Í stað þess að starfa í anda gagnsæis og af viðleitni til að draga úr áhættu veldu Rússar þann kost að stunda upplýsingafalsanir og grípa til afneitana og blekkinga. Þeir lýstu Úkraínu, NATO og Bandaríkin árásaðila en stilltu samtímis herafla sínum í sóknarstöðu til innrásar í nágrannaríki sitt. Þetta væri fyllilega í samræmi við innrás þeirra og hernám í Georgíu árið 2008 og í Úkraínu árið 2014.

Sendiherrann sagði ljóst að Rússar ætluðu að búa til átyllu til að réttlæta innrás í Úkraínu. Fyrir lægju fjöldi frásagna margra ólíkra aðila um tilraunir Rússa til að setja á svið „ögranir Úkraínumanna“ og kynna atburðarás á þann veg að hún réttlætti rússneska innrás. Samhliða þessu hefði nú í vikunni verið efnt til netárása á varnarkerfi Úkraínu og bankakerfi landsins.

Af þessum sökum taldi sendiherrann nauðsynlegt að bera á bak aftur allar rangfærslur um „stigmögnun“ af hálfu Úkraínumanna. Ekkert kæmi fram um slíkt í rannsóknarskýrslum eftirlitsmanna ÖSE. Standa yrði á verði gegn allri blekkingariðju til að réttlæta árás og vara við röngum fullyrðingum um „þjóðarmorð“, orð sem aldrei ætti að hafa í flimtingum. Þá yrði að hafa varann á sér vegna fullyrðinga Rússa um brottflutning hermanna á sama tíma og þeir styrktu stöðu sína annars staðar við landamæri Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …