Home / Fréttir / Úkraína: Rætt um herlög eftir árás Rússa á Svartahafi

Úkraína: Rætt um herlög eftir árás Rússa á Svartahafi

Kortið sýnir hvar ráðist var á herskip Úkraínu. Þá má sjá höfnina Mariupol við Azovhaf.
Kortið sýnir hvar ráðist var á herskip Úkraínu. Þá má sjá höfnina Mariupol við Azovhaf.

Þing Úkraínu ræðir tillögu um innleiðingu herlaga í landinu eftir að rússneskar sérsveitir hertóku þrjú herskip í flota Úkraínu sunnudaginn 26. nóvember og handtóku 23 menn í áhöfnum skipanna. Skipin voru tekin á siglingu á Svartahafi undan strönd Krímskaga sem Rússar innlimuðu í mars 2014.

Rússar skutu að skipunum áður en sérsveitarmenn ruddust um borð í skipin. Þrír eða sex Úkraínumenn særðust. Stjórn Úkraínu sagði um „árás“ að ræða. Stjórnvöld í Moskvu sögðu skipin hafa brotið gegn siglingabanni.

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, hvatti mánudaginn 26. júní þingmenn til að styðja tillöguna um herlög í 30 daga – daginn áður hafði öryggis- og varnarráð Úkraínu lagt til að herlögin giltu í 60 daga.

Forsetinn flutti sjónvarpsávarp og sagðist ekki vilja að herlög giltu þegar gengið yrði til forsetakosninga 31. mars 2019. Verði tillagan samþykkt taka herlögin gildi að morgni miðvikudags 28. nóvember.

Frá átökunum á Svartahafi.
Frá átökunum á Svartahafi.

Árás Rússa á skip Úkraínumanna er til marks um stóraukna spennu milli þjóðanna. Þetta er í fyrsta sinn sem herir landanna lenda í átökum sín á milli en her Úkraínu hefur undanfarin ár barist við aðskilnaðarsinna og rússneska sjálfboðaliða í austurhluta Úkraínu.

Flotastjórn Úkraínu segir að skip hennar – tveir fallbyssubátar og dráttarbátar – hefðu orðið fyrir árás að kvöldi sunnudagsins 25. nóvember þegar reyndu að sigla frá svæði skammt brú sem Rússar hafa smíðað yfir Kerch-sund. Ekki er unnt að komast inn á Azovhaf nema í gegnum sundið.

Viktor Muzhenko, yfirmaður hers Úkraínu, sagði að Rússar hefðu skotið föstum skotum í átökunum. Yfirstjórn rússnesku öryggis- og landamæragæslunnar FSB sagði að strandgæsluskip sitt hefði elt úkraínsku skipin og hafið skothríð til að stöðva þau. Hún sagði einnig að þrír Úkraínumenn í áhöfn skipanna hefðu særst og hugað væri að sárum þeirra á sjúkrahúsi á Krímskaga.

Áður en áhöfn rússneska strandgæsluskipsins lét til skarar skríða beittu Rússar orrustuflugvélum og þyrlum fyrir utan að loka brúnni með skriðdreka.

Ætlun Úkraínumanna var að sigla skipum sínum frá Odessa við Svartahaf til hafnarborgarinnar Mariupol við Azovhaf. Þá reyndu Rússar að stöðva ferð skipanna og sigldu á dráttarbátinn.

Rússar sögðu ferð úkraínsku skipanna ólöglega eftir að FSB bannaði tímabundið siglingar um svæðið.

Stjórnvöld í Kænugarði sökuðu Rússa um að brjóta gróft gegn alþjóðalögum því að öllum væri frjálst að sigla um Svartahaf auk þess sem Krímskagi væri hluti Úkraínu hvað sem innlimun Rússa liði.

Þá vitnuðu Úkraínumenn í sáttamála sem þeir gerðu við Rússa árið 2003 sem tryggði frjálsa för skipa um Kerch-sund og Azovhaf. Þeir hefðu sent Rússum tilkynningu um fyrirhugaða ferð skipanna til Mariupol. Þetta segja Rússar ekki rétt.

Fyrir skömmu sigldu tvö skip frá Úkraínu hindrunarlaust um Kerch-sund.

Fyrir nokkrum mánuðum tóku Rússar til við að rannsaka öll skip sem sigldu til eða frá höfnum í Úkraínu. Þessar aðgerðir hófust skömmu eftir að Úkraínumenn lögðu hald á fiskibát frá Krímskaga í mars. Rússar segja að þeir verði að skoða öll skip af öryggisástæðum. Hætta sé á að úkraínskir öfgamenn ráðist á Kerch-brúna.

Úkraínumenn saka Rússa um að ætla að vega að efnahag sínum með því að loka Azovhafi og þar með tveimur mikilvægum höfnum Berdjansk og Mariupol.

Porosjenko forseti sagði við The Washington Post í september að járn- og stálvörur frá Mariupol sköpuðu 25% af útflutningstekjum Úkraínu. Forsetinn sagði aðgerðir Rússa nú „tilefnislausar og sturlaðar“. Hann sagði að herlög  jafngiltu „ekki stríðsyfirlýsingu“. Úkraínumenn ætluðu ekki að berjast við neinn.

Varnarmálaráðuneytið í Kænugarði tilkynnti að fyrirmæli hefðu verið gefin um að herinn ætti að vera við öllu búinn. Í krafti herlaga getur ríkisstjórnin fengið vald til að setja bann við mótmælaaðgerðum, mæla fyrir um ritskoðun, fresta kosningum og skylda almenna borgara til að sinna „þegnskyldustörfum“ til dæmis við varnarmannvirki.

 

Heimild: BBC

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …