
Úkraínumenn ganga til forsetakosninga sunnudaginn 21. apríl, páskadag. Nú eru fimm ár liðin frá því að umskipti urðu í stjórnmálum landsins eftir mikil mótmæli í Kænugarð og annars staðar í landinu. Þar tókust á öfl sem vilja nánari samskipti við NATO og ESB og þeir sem vilja halla sér að Rússum. Vestræn viðhorf sigruðu og Rússar hafa síðan stutt aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins fyrir utan að innlima Krím áður en til umskiptanna í Úkraínu kom.
Nú takast á sitjandi forseti, Petro Porosjenko, og sjónvarps-gamanleikarinn Volodjimír Zelenskíj. Síðustu kannanir sýna að Zelenskíj fái 60% atkvæða. Hann sigraði í fyrri umferð kosninganna sunnudaginn 31. mars.
Í fyrri umferðinni kom í ljós að Zelenskíj á stuðningsmenn um land allt. Þótt hann hafi aldrei fyrr tekið þátt í stjórnmálum hlaut hann meirihluta í næstum öllum héruðum landsins – er sjaldgæft að það gerist í Úkraínu.
Zelenskíj kom öllum á óvart á gamlárskvöld 2018 með því að lýsa yfir framboði sínu. Fjölmargir lýstu þó strax stuðningi við hann. Mestur er stuðningur við hann í austur og suður hluta Úkraínu þar sem margir eru rússnesku mælandi og telja að Porosjenko og stjórn hans hafi neitt þá til að sætta sig við úkraínsku og úkraínska menningu. Zelenskíj fæddist á þessum slóðum, hann talar rússnesku og margir rússnesku mælandi Úkraínumenn telja hann í sínum hópi. Hann sækir einnig fylgi til mið og vestur hluta landsins.
Margir lýsa yfir stuðningi við Zelenskíj vegna vinsælda hans sem gamanleikara og vegna þess að mannorð hans hefur ekki borið hnekki af þátttöku í stjórnmálum Úkraínu. Almenningur í landinu er sagður hafa fengið nóg af óstöðugleika og spillingu. Fólk vill byrja upp á nýtt segja stjórnmálaskýrendur og þess vegna sé það tilbúið að veðja á pólitískan hvítvoðung.
Ímynd Zelenskjís mótast að nokkru af vinsælum sjónvarpsþætti, Þjóni fólksins, þar sem hann leikur kennara sem verður forseti og ræðst gegn spillingu. Sjónvarpspersónan gerir atlögu að „spilltum og gráðugum“ stjórnmálamönnum. Þetta er einmitt það sem margir vonsviknir Úkraínumenn vilja að verði gert.
Eftir að hafa náð góðum árangri í fyrri umferð kosninganna hætti Zelenskíj að mestu leyti að taka þátt í kosningabaráttunni. Hann veitti ekki viðtöl, sagðist sannfærður um um að hann fengi svipað fylgi í seinni umferðinni. Hann hefur af og til snúið sér5 til stuðningsmanna sinna með kaldhæðnum myndskeiðum á samfélagsmiðlum. Menn skemmtu sér til dæmis dögum saman með umræðum um þá kröfu Zelenskíjs að forsetaframbjóðendur yrðu að standast fíkniefna- og áfengismælingu. Stjórnmál í venjulegum skilningi eru lítið rædd fyrir utan kappræðufund á 70.000 manna leikvangi Kænugarðs föstudaginn langa. Talið er að um 22.000 manns hafi verið á fundinum sem var sjónvarpað til 44 milljón kjósenda. Fundurinn einkenndist meira af upphrópunum og skömmum en raunverulegum umræðum og er ekki talinn hafa breytt neinu.
Porosjenko hefur ekki farið varhluta af þrýstingnum frá Zelenskíj. Forsetinn hefur látið undan næstum öllum kröfum keppinautarins og jafnvel reynt að tileinka sér sumt af einkennilegum kosningabrögðum hans.
Eftir því sem sigurlíkur Zelenskíjs hafa aukist hefur Porosjenko hert áróður um að keppinautur sinn sé ekki annað en peð í tafli Vladimirs Pútins um framtíð Úkraínu. Þessi áróður snerist í höndunum á Porosjenko og hans mönnum.
Stjórnmálaskýrendur segja að við Porosjenko blasi sá kaldi veruleiki að almenningur lætur sig meiru skipta að fátækt eykst og verð á gasi hækkar en til dæmis að ná þeim árangri á alþjóðavettvangi að Úkraínumenn þurfi ekki vegabréfsáritun til að komast til ESB-ríkja. Þá situr forsetinn undir ásökunum um spillingu og fáir stjórnmálaflokkar styðja hann þar sem flestir telja að Zelenskíj sigri.
Enginn veit í raun hvað tekur við ef Zelenskíj sigrar, stefna hans er svo óljós. Hverfi hann frá vináttustefnu vestur á bóginn og halli sér frekar að Rússum vaknar spurning um afstöðu almennings. Enginn treystir sér til að fullyrða um neitt í því efni.
Þegar Viktor Janukovitjs, forseti fyrir fimm árum, vildi efla tengslin við Moskvumenn varð það olía á eld mikillar óánægju sem birtist á götum og torgum Kænugarðs og leiddi að lokum til falls forsetans fyrri hluta árs 2014. Zelenskíj hefur lofað að leggj rækt við tengslin við ESB, hann hefur jafnframt látið í ljós vilja til málamiðlunar gagnvart Rússum.
Heimild: DW