Home / Fréttir / Úkraína: Óvissa um hvert stefnir – þáttaskil til góðs eða aukinna vonbrigða

Úkraína: Óvissa um hvert stefnir – þáttaskil til góðs eða aukinna vonbrigða

Volodimír Zelenskíj.
Volodmír Zelenskíj.

Volodomír Zelenskíj vann stórsigur í forsetakosningunum í Úkraínu á páskadag, 21. apríl. Ástandið er óljóst eins og lesa má í þessari grein eftir Nikolas K. Gvosdev sem skrifar fyrir bandarísku vefsíðuna The National Interest. Hér birtist mat hans á úrslitum kosninganna og hvort þau marki þáttaskil eða allt sé í sama fari og áður:

 

Það ber að hrósa Petro Porosjenko, fráfarandi forseta, Úkraínu fyrir að hafa staðið fyrir kosningum sem almennt fóru vel fram og þó ekki síður fyrir að sætta sig við niðurstöðuna. Hann hlýtur þó með sjálfum sér að anda léttar yfir að þurfa ekki að bera ábyrgð á ýmsum mikilvægum ákvörðunum sem taka þarf um framtíð Úkraínu – ákvörðunum sem eiga eftir að reynast erfiðar og óvinsælar.

Gamanleikarinn Volodomír Zelenskíj fellur vel inn í hóp popúlískra uppnáms-frambjóðenda sem hafa sigrað í kosningum um alla Evrópu – og aðdráttarafl hans sem forsetaefnis vegna þess að hann lék forseta í sjónvarpi minnir á hvernig framganga Donalds Trumps í sjónvarpsþættinum The Apprentice (Lærlingnum) jók veg hans í forsetaframboðinu. Kosningabarátta Zelenskíjs var brotakennd – kjósendur létu í ljós óánægju sína og reiði vegna vanmáttar stjórnar Porosjenskos við að hrinda í framkvæmd fyrirheitum Maidan-uppreisnarinnar, vegna þess hvernig hann hefur haldið á málum gagnvart Rússum og vegna sársaukafullra efnahagsaðgerða sem stjórnin í Úkraínu hefur neyðst til að gera til að fá fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að fullnægja skilyrðum í samstarfssamningnum við ESB – óánægjan fékk útrás í stuðningi við frambjóðanda sem boðaði enga skýra stefnu.

Þegar leitast er við að skilgreina hverjir kusu Zelenskíj og veittu honum glæsilegt brautargengi í annarri umferð forsetakosninganna kemur strax í ljós að þetta er samsteypa án stöðugleika – líklegt er að hún brotni hratt upp. Fylgi Zelenskíjs var sannfærandi mikið í suðri og austri, þar drógust margir kjósendur að honum vegna loforða hans um að ná sáttum í átökunum við Rússa. Ungir kjósendur sem urðu fyrir miklum vonbrigðum vegna þess hve hratt stjórnmálin fóru í sama farið og þau voru fyrir Maidan-uppþotin gengu til liðs við ópólitískan utangarðsmann í von um að geta ræst út ófögnuðinn í Kænugarði. Í fáum opinberum yfirlýsingum sínum lýst Zelenskíj stuðningi við fulla aðild að ESB og NATO. Þetta er sama og einkenndi loforð Porosjenkos en fyrirheit Zelenskíjs stuðluðu að því að þjóðernissinnaðir kjósendur í vestri töldu sig hafa annan kost en að styðja Porosjenko. Loks lét Zelenskíj nokkur óljós orð falla um að hann ætlaði að breyta um stefnu til að létta af efnahagsbyrðum sem hvílt hafa þungt á Úkraínumönnum undanfarin ár, þetta kann að hafa stuðlað að því að eldri borgarar lögðu honum lið þótt almennt væri talið að þeir vildu helst halda í óbreytt stjórnmálaástand.

Zelenskíj verður ekki aðeins að sýna að hann geti fengið sér til aðstoðar menn með sérfræðiþekkingu (hann viðurkennir skort sinn á henni) til að móta stefnu sem nær til allra þessara þátta, hann verður einnig að geta treyst samheldni innan ríkisstjórnar sem kann fljótt að springa vegna ólíkrar afstöðu til forgangsmála. Hann glímir við svipaðan vanda og Emmanuel Macron Frakklandsforseti, að setjast í forsetaembættið án þess að hafa pólitíska fótfestu í þinginu, Rada. Margar hugmyndir hans um hvernig eigi að „ræsa út“ kerfið verða einfaldlega að að engu við árekstur á varnarvegginn sem þingmenn Úkraínu reisa með því að neita í lengstu lög að afsala sér þinghelgi. Það verður einnig áskorun fyrir hann að skýra samband sitt við auðvaldsmanninn Ihor Kolomoiskíj – ýmsir aðgerðasinnanna á Maidan-torginu um árið fylgjast af áhuga með því hvort aðgerðir Zelenskíjs gegn spillingu nái til allra, sama hver á í hlut, eða verði sértækar og beinist aðeins að stjórnmálaandstæðingum.

Það er engin ástæða til að rjúfa Rada of snemma og þess vegna verður Zelenskíj að kanna hvort hann getur aflað sér stuðnings meirihluta þingmanna fyrstu sex mánuði hans í embætti, mánuðina sem geta skipt sköpum fyrir hann – hann verður einnig að ákveða hvort hann vill koma stofna einhvers konar pólitíska hreyfingu sem berst fyrir sætum á Rada í þingkosningunum í október. Geri hann það ekki kann að myndast pattstaða milli hans og þingsins. […]

Vilji Zelenskíj bæta efnahag Úkraínumanna og létta af þeim byrðum verður hann að afla meiri aðstoðar og lána og gera skuldbreytingar til að losna undan gjalddögum. Hann verður einnig að láta á það reyna hvort evrópskir leiðtogar leggi sig meira fram en til þessa við að þrýsta á Rússa svo að þeir dragi ekki úr sölu á gasi um leiðslur í gegnum Úkraínu. Zelenskíj fékk heillaóskir eftir kosningasigurinn en tekst honum að fá frekari aðstoð, það á eftir að koma í ljós. Zerenskíj tekst ef til vill að fá Þjóðverja til að sjá til þess með samningi við Rússa að NordStream 2 leiði ekki til þess að lokað verði fyrir allt gasstreymi um Úkraínu, það breytir þó ekki því að Úkraínumenn munu tapa fé vegna minna gegnumflæðis á meðan Zelenskíj er við völd.

Zelenskíj gaf óljóst fyrirheit um að hann yrði betur til þess fallinn en Porosjenko að binda enda á átökin við Rússa. Þetta vakti stuðning við hann og mótmælenda framboð hans í þeim hlutum Úkraínu þar sem enn er að finna mikilvæg fjárhagsleg tengsl við Rússland þrátt fyrir atburði undanfarinna ára. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að skömmu fyrir kosningarnar hertu stjórnvöld í Moskvu á viðskiptaþvingunum gagnvart Úkraínumönnum. Vladimir Pútin hefur ekki sýnt nein merki um að hann fagni breytingunum sem urðu í kosningunum í Úkraínu eða að hann kjósi frekar að eiga í samskiptum við Zelenskíj en Porosjenko. Á þessu stigi hafa Rússar ekkert upp úr því að létta undir með Zelenskíj á einn eða annan hátt, einkum ef í ljós kemur að hann getur engu stjórnað. Það kann að þjóna hagsmunum Rússa betur að hafa hægt um sig og sjá hvort ástandið versnar enn í Úkraínu – í Moskvu meta menn síðan hvaða hag þeir geta haft af stöðunni. Kremlverjum verður einkum mikið í mun að draga athygli að öllu sem miður fer í efnahagslífi Úkraínu og nýta sér til áróðurs á heimavelli til að sanna að mótmæli og kosningar leiði ekki til betra ástands – og til að gera Rússum ljóst að þeim beri að þakka stöðugleikann sem þeir njóti undir handarjaðri Kremlverja.

Við Zelenskíj blasir að hann á ekki eftir að njóta neinna hveitibrauðsdaga hvorki innan Úkraínu né í samskiptum við helstu erlendu samstarfsaðila landsins og lykilkeppnaut þess. Það kemur í ljós hve mikils svigrúms hann nýtur – og það er allt of snemmt að ákvarða hvort kjör hans markar þáttaskil fyrir Úkraínumenn og léttir af þeim kreppunni eða hvort það eykur aðeins á vonbrigði þjóðarinnar.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …