Home / Fréttir / Úkraína: Ótti við innrás Rússa mikill – hervæðing umsátursins magnast

Úkraína: Ótti við innrás Rússa mikill – hervæðing umsátursins magnast

Ný flotbrú Rússa skammt frá landamærum Úkraínu. um 100 km frá Kiev.

Spenna vegna umsáturs Rússa um Úkraínu hefur aukist frá því miðvikudaginn 16. febrúar. Fulltrúi Bandaríkjastjórnar segir að í stað þess að fækka hermönnum við landamæri Úkraínu hafi þeim fjölgað um 7.000. Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sagði að morgni 17. febrúar að á tveimur sólarhringum hefðu Rússar fjölgað um 7.000 hermenn í umsátursliðinu.

Að morgni fimmtudags 17. febrúar bárust fréttir um sprengingar og skothríð í austurhluta Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar hafa búið um sig og stofnað sjálfstjórnarsvæði með stuðningi Rússa. Vakna grunsemdir um að þar sé um að ræða sviðsettar ögranir af hálfu rússneskra sérsveitarmanna til að skapa átyllu til innrásar.

Þá sýndu nýjar gervitunglamyndir að morgni 17. febrúar að Rússar hefðu lagt flotbrú yfir ána Pripjat í suðurhluta Hvíta-Rússlands, aðeins sex kílómetra frá landamærum Úkraínu.

Brúin er skammt frá æfingasvæði hvítrússneskra hermanna og um 30.000 rússneskra hermanna sem þar hafa verið í um það bil viku.

Planet Labs og Maxar Technologies sem birtu myndirnar segja að brúin hafi verið lögð frá mánudegi til þriðjudags í þessari viku. Landsvæðið á þessum slóðum að skriðdrekar og aðrir brynvagnar komast ekki leiðar sinnar án þess að brýr af þessu tagi séu notaðar, til dæmis til að fara inn í Úkraínu. Innan við 100 km eru frá landamærunum á þessum stað til Kiev, höfuðborgar Úkraínu.

Sérfræðingar segja að af myndunum einum megi ekki ráða hvort brúin sé lögð vegna heræfinganna eða til þess að flytja megi innrásarher í Úkraínu. Minnt er á að tilgangur umsáturs Rússa sé að ógna eins og frekast er kostur og brúin minni á að heræfingar geti fljótt breyst í innrás.

Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, fór til Kiev 17. febrúar. Hún sagði hættu á að Rússar mundu viðhalda hættuástandi vegna Úkraínu mánuðum saman í von um að rjúfa samstöðu Vesturlanda. Það lægi hvergi fyrir sönnun um að Rússar væru á leið brott frá landamærum Úkraínu. Engin merki væri um samdrátt í hervæðingu þeirra þar.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari ræddi við Joe Biden Bandaríkjaforseta miðvikudaginn 16. febrúar og sagði honum frá viðræðum sínum í Kiev og Moskvu fyrr í vikunni. Taldi kanslarinn að „hættan á frekari hernaðarsókn Rússa“ væri „mikil“, sagði í tilkynningu að símtalinu loknu.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …