Home / Fréttir / Úkraína: Hryðjuverkaárásir Rússa á almenna borgarar aukast

Úkraína: Hryðjuverkaárásir Rússa á almenna borgarar aukast

Þannig var umhorfs í borginni Vinnjitsia í Vestur-Úkraínu  eftir árás Rússa á íbúðahverfi hennar á dögunum.

Rússar ráðast æ oftar á borgaraleg skotmörk í Úkraínu. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sakar Rússa um að ráðast á almenna borgara af ásetningi. Vegna árásarinnar á borgina Vinnjitsia sagði forsetinn:

„Dag hvern vinna Rússar skemmdarverk á almennum borgurum, þeir drepa úkraínsk börn og senda flaugar á borgaraleg mannvirki sem hafa ekki neitt hernaðarlegt gildi. Hvað er þetta annað en augljós hryðjuverk?“

Forsetinn telur að Rússar hafi eitt skýrt takmark:

„Hernámsliðið veit að við verðum smátt og smátt sterkari og ætlunin með hryðjuverkum þess er skýr: Að beita okkur þrýstingi, samfélagið allt og hræða þjóðina.“

Árásin í liðinni viku á borginni Vinnjitsia langt til vesturs í Úkraínu er nefnd sem dæmi um tilraunir Rússa til að brjóta niður baráttuþrek andstæðinga sinna. Sprengjuflaugar lentu í miðborginni þar um miðjan dag.

Að minnsta kosti 23 týndu lífi þar á meðal þrjú börn. Borgin og skotmörkin skipta engu í hernaðarlegu tilliti að sögn úkraínskra stjórnvalda.

Norska fréttastofan, NTB, ræddi þessa þróun stríðsins við Tormod Heier, prófessor við háskóla norska hersins, Forsvarets høyskole. Hann sagði að skotflaugaárásir Rússa í júní og júlí væru á annan veg en áður. Árásirnar beindust sífellt meira að borgaralegum skotmörkum sem auðvelt væri að hitta í stað þess að skotið sé á minni hernaðarleg skotmörk sem erfitt sé að hitta.

Heier segir að skýringarnar á þessu geti verið ýmsar. Hugsanlega séu Rússar að spara bestu skotflaugar sínar sem beina megi af nákvæmni á skotmörk og noti þess vegna gamlar gerðir flauga.

„Sé svo er eðlilegra að ráðast á stór skotmörk eins og íbúðabyggð,“ segir Heier.

Þá kunni skýringin að felast í því að markmið Rússa sé að koma í veg fyrir að fólk geti í friði gengið til daglegra starfa sinna í Úkraínu. Þeir sem búi í vesturhluta landsins megi ekki anda léttar. Á þennan hátt sé unnt að ala á stríðsótta meðal almennings í Úkraínu og stjórnvöld í Kyív neyðist til að nota meira af því litla sem þau hafa yfir að ráða í þágu almannavarna.

Hryðjuverka-sprengingarnar svonefndu séu í raun liður í hernaðarstefnu Rússa sem miði að því að trufla allt daglegt líf í Úkraínu og hindra að nokkur verðmæti myndist í vesturhluta landsins. Það dragi úr fjárhagslegri getu stjórnar Úkraínu til að halda uppi vörnum eða sækja fram í austri þar sem Rússar vilja sölsa Donbas-hérað undir sig.

Líklega telji Rússar að árásirnar á almenna borgara skapi áfallastreitu í samfélaginu og búi þannig í haginn fyrir rússneska herinn og tilraunir hans til að ná á sitt vald landi í suður- og austurhluta landsins.

Heier segist ekki vera þessarar skoðunar. Í stað þess að veikja baráttuvilja Úkraínumanna aukist hann vegna árása Rússa á almenna borgara. Það verði erfiðara fyrir Rússa að sækja fram og hernema stærri svæði innan Úkraínu. Andstaða almennings komi í veg fyrir landvinningana.

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …