
Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, segir að Úkraínustjórn ætli að beita „milljón manna her“ með NATO-vopnum til að ná að nýju suðurhluta lands síns á sitt vald frá hernámsliði Rússa. Þjóðinni sé lífsnauðsynlegt að ráða að nýju yfir strandsvæðum við Svartahaf.
Í frétt BBC segir mánudaginn 11. júlí að ummælin beri meiri vott um hvatningu til dáða en eitthvað sem liggi á teikniborðinu. Ráðherrann lét þau falla í samtali við The Times í London þar sem hann hrósaði Bretum fyrir að hafa gegnt „lykilhlutverki“ við að gera her Úkraínu kleift að losa sig við vopn frá tíma Sovétríkjanna og fá í staðinn loftvarnakerfi og skotfæri sem falli að NATO-stöðlum.
Varnarmálaráðherrann hvatti til þess að afhendingu vopna yrði flýtt. Það yrði að gera allt sem hægt væri til að skapa her landsins skjól og öryggi.
„Við erum með um það bil 700.000 manns undir vopnum og þegar bætt er við þjóðvarðliðum, lögreglu, landamæravörðum erum við með um milljón manns,“ sagði ráðherrann.
Dr. Jack Watling, sérfræðingur við bresku herfræðistofnunina Royal United Services Institute (RUSI), segir að taka eigi þessari tölu með fyrirvara.
„Hér er ekki um að ræða milljón manna her sem sendur verður til gagnsóknar,“ sagði hann við BBC. „Almennt séð er reynt að koma óvininum á óvart þegar hafin er gagnsókn svo að opinber yfirlýsing af þessu tagi er til þess fallin að knýja Rússa til dreifa kröftum sínum á stærra svæði en ella til að snúast gegn ógninni.“