Home / Fréttir / Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Yfirlitsmynd frá utanrikisráðherrafundi NATO 28. nóvember 2023,

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um stuðning ríkjanna við Úkraínu, undirbúning fyrir ríkisoddvitafund bandalagsins í Washington á 75 ára afmæli NATO árið 2024 og brýn öryggismál þar á meðal á Vestur-Balkanskaga og við suðurjaðar NATO-svæðisins.

Í fyrsta sinn var efnt til ráðherrafundar í NATO-Úkraínuráðinu og sat Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, fundinn. Að loknum fundinum tilkynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að ráðherrarnir hefðu samþykkt víðtæka áætlun fyrir næsta ár um aðstoð við Úkraínu, snerti hún orkuöryggi, nýsköpun og samhæfingu. Það væri nú markmiðið að leggja grunn að samstarfi til nokkurra ára sem miðaði að því að aðstoða Úkraínumenn að við losa sig undan sovéskri tækjatækni og samhæfa tæki sín kröfum NATO.

Rætt var um leið Úkraínu til aðildar að NATO og kynntar tillögur um það sem ætti að setja í forgang af hálfu Úkraínumanna, þar ber hæst umbætur til að útrýma spillingu, efla réttarríkið og mannréttindi auk þess að tryggja réttarstöðu minnihlutahópa. Stoltenberg fagnaði sigrum Úkraínumanna í orrustum um Kyív, Kharkiv og Kherson. Mestu skipti að Úkraína hefði haldið fullveldi sínu, sjálfstæði og lýðræðislegum stjórnarháttum. „Úkraína stendur nær NATO núna en nokkru sinni fyrr,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um NATO-ráðherrafundinn segir að

mikill samhljómur sé um mikilvægi þess að ákvörðunum sem þegar hafi verið teknar um styrkingu á varnarviðbúnaði bandalagsins verði framfylgt og að öll bandalagsríki standi við skuldbindingar sínar um sameiginlegar varnir. Þá hafi ráðherrarnir lagt ríka áherslu á áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu Úkraínu og vegferð landsins í átt að NATO-aðild, fjölbreyttar áskoranir af hálfu Kína, og mikilvægi samvinnu við samstarfsríki á Indó-Kyrrahafssvæðinu og við suðurjaðar bandalagsins.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sat fundinn og sagði að honum loknum:

„Ég fagna þeirri miklu einingu sem fram kom meðal bandalagsríkja enda stöndum við frammi fyrir afar krefjandi áskorunum í Evrópu og víðar á alþjóðavettvangi. Í ljósi þess hefur mikilvægi Atlantshafsbandalagsins sjaldan eða aldrei verið meira. Það er staðfastur vilji bandalagsríkja að styðja Úkraínu með ráðum og dáð. Fundurinn undirstrikar með skýrum hætti að öryggi Úkraínu er órjúfanlegur hluti þess að tryggja öryggi og frið í Evrópu. Ég ítrekaði áframhaldandi aðstoð Íslands til Úkraínu.“

Stofnun NATO-Úkraínuráðsins var samþykkt á ríkisoddvitafundi NATO í Vilníus í júlí 2023. Það markar kaflaskil í samskiptum NATO og Úkraínu.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna með annars vegar utanríkisráðherrum Benelúx-ríkjanna, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar, og hins vegar með Kanada, auk samráðsfundar með ráðherrum Eystrasaltsríkjanna. Þá fundaði utanríkisráðherra  jafnframt tvíhliða með utanríkisráðherrum Eistlands og Tékklands þar sem tvíhliða samstarf ríkjanna og stuðningur við Úkraínu voru meðal annars til umræðu.

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …