Home / Fréttir / Úkraína: Bandarísk HIMARS-skotkerfi breyta gangi stríðsins

Úkraína: Bandarísk HIMARS-skotkerfi breyta gangi stríðsins

Hreyfanlegur skotpallur er hluti HIMARS-kerfisins.

Að kvöldi föstudags 8. júlí tilkynnti bandaríska varnarmálaráðuneytið að hergögn fyrir 400 milljónir dollara hefðu verið afhent stjórn Úkraínu. Var birtur listi í sjö liðum. Þar bar hæst fjóra hreyfanlega skotpalla fyrir langdrægar stórskotaliðsflaugar, svonefnd HIMARS-kerfi.

„HIMARS hefur þegar breytt miklu á vígvellinum. Fjölgun kerfanna í okkar höndum auk bandarískra skotfæra og annars búnaðar eykur styrk okkar og stuðlar að því að afvopna hryðjuverkamennina,“ sagði Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, á Twitter og vísaði til Rússa.

Áður höfðu Úkraínumenn fengið átta HIMARS-kerfi frá Bandaríkjunum. Þótt þau hafi aðeins verið notuð í tvær vikur hafa þau, eins og Eeznikov viðurkennir, strax breytt gangi stríðsins.

Með skotfærum í kerfunum eins og þau eru nú má granda skotmörkum í 70-80 km fjarlægð. Þetta hefur auðveldað Úkraínuher að eyðileggja flutningaleiðir og stöðvar rússneska hersins á svæðum sem Rússar hafa litið á sem örugg til þessa.

Nú berast daglega fréttir um að rússneskar stjórnstöðvar, birgðastöðvar og skotfærageymslur verði fyrir árásum Úkraínuhers. Ekki er unnt að sannreyna allar þessar fréttir, einkum vegna þess að tjónið verður svo langt inni á yfirráðasvæði Rússa. Gervihnattarmyndir af eyðilögðum geymsluskálum og himinháir reykjarstrókar styðja þó að fréttirnar séu réttar. Bandaríska hugveitan Atlantic Council sagði frá því 8. júlí að minnst sjö skotfærageymslur hefðu verið eyðilagðar.

Úkraínumenn fóru snemma í stríðinu fram á að fá HIMARS og önnuð svipuð kerfi frá vestrænum ríkjum til að jafna metin gagnvart meðal- og langdrægum vopnum Rússa. Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hikuðu þó við að stíga þetta skref af ótta við að vopnin yrðu notuð gegn skotmökum innan landamæra Rússlands sem mundi kalla á ofsaviðbrögð frá Pútin.

Þetta er einnig sögð ástæðan fyrir því að HIMARS-skotfærin frá Bandaríkjunum draga nú ekki lengra en raunin er, unnt er skjóta flaugum sem draga allt að 300 km með kerfinu.

Fyrir utan HIMARS-skotkerfin eru þessi sex atriði á lista Pentagons, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, frá 8. júlí:

Skotfæri fyrir HIMARS-kerfin 12.

Þrír björgunarbílar.

Skotfæri í 155 mm sprengjuvörpur (hábyssur).

Eyðileggingar-hergögn.

Kerfi til að greina og staðsetja óvinveitt stórskotalið.

Varahlutir og annar óskilgreindur búnaður.

Fyrir utan þennan vopnabúnað frá Bandaríkjunum hafa önnur samstarfsríki Úkraínu lofað að afhenda þeim hergögn, þar á meðal hreyfanlegar sprengjuvörpur.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …