
Aðskilnaðarsinnar hollir Rússum í austurhluta Úkraínu hófu miðvikudaginn 3. júní, að sögn stjórnvalda í Kænugarði, „meiriháttar sókn“ gegn stöðvum stjórnvalda. Vekur þetta ótta um að ný átakahrina sé að hefjast í landinu á sama tíma og fréttir berast frá Rússlandi um að aðskilnaðarsinnar hafi orðið fyrir auknu áreiti.
Aðskilnaðarsinnar segjast ekki sjálfir eiga neina aðild að þessum sóknaraðgerðum en staðfesta að til bardaga hafi komið skammt frá Maríjnka, um 20 km frá bækistöð þeirra í Donetsk.
BBC og The New York Times (NYT) segja þetta mestu árekstra milli ólíkra fylkinga í austurhluta Úkraínu síðan aðskilnaðarsinnar lögðu undir sig mikilvæga járnbrautamiðstöð við Debaltsevo, miðja vegu milli stöðva þeirra í Donetsk og Luhansk, það gerðist skömmu eftir að vopnahlé tók gildi 15. febrúar 2015 í anda Minsk-friðarsamkomulagsins.
Í tilkynningu herráðs Úkraínu miðvikudaginn 3. júní sagði að um klukkan fjögur að morgni þess sama dags hefðu rússneskir hryðjuverkamenn brotið Minsk-samkomulagið með „meiriháttar sókn gegn úkraínskum stöðvum“ og þar sagði einnig: „Óvinurinn sendi í átt að Maríjnka meira en 10 skriðdreka og allt að 1.000 menn gegn herliði Úkraínu.“
Í Le Monde er haft eftir SBU (öryggisþjónustu Úkraínu) að 10 aðskilnaðarsinnar hafi fallið í átökunum, þar af fjórir útsendarar GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Þá hafi 80 aðskilnaðarsinnar særst.
Herráð Úkraínu segir að liðsmönnum sínum hafi tekist að hrinda árásinni með því að grípa til stórskotavopna.
Átökin í austurhluta Úkraínu hafa kostað rúmlega 6.400 manns lífið síðan þau hófust í apríl 2014. Ráðamenn í Kænugarði og á Vesturlöndum saka rússnesk stjórnvöld um að styðja og vopna aðskilnaðarsinna holla sér en í Moskvu hafna menn alfarið slíkum ásökunum.