
Uffe Ellemann, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, skrifar reglulega dálk á vefsíðu Berlingske Tidende (b.dk). Mánudaginn 3. apríl fjallaði hann um hættu á íhlutun Rússa í kosningar í Frakklandi og Þýskalandi í ár.
Ellemann segir að um síðustu helgi hafi sá óvenjulegi atburður gerst að frönsk eftirlitsnefnd með starfi fyrirtækja sem stunda skoðanakannanir hafi sent frá sér viðvörun gegn tilraun af hálfu Rússa til að birta falskar upplýsingar um stöðuna í frönsku forsetakosningabaráttunni.
Málið snýst um að rússneska fréttastofan Sputnik sem oft er notuð til að flytja falsfréttir og áróður birti frétt með fyrirsögninni: Fillon aftur með mest fylgi í skoðanakönnunum. Vísað er til niðurstöðu könnunar á vegum fyrirtækisins Brand Analyctics í Moskvu. Franska eftirlitsnefndin hefur kynnt sér niðurstöðurnar og segir að ekki sé um skoðanakönnun að ræða. Þetta var með öðrum orðum falsfrétt, segir Uffe Ellemann.
Hann veltir fyrir sér hvert sé markmið Kremlverja með því að dreifa uppspuna af þessu tagi og segir að þeir vilji að lokaslagurinn í frönsku forsetakosningunum verði á milli Marine Le Pen úr Þjóðfylkingunni annars vegar og François Fillon frá Lýðveldisflokknum (mið-hægri) hins vegar, þau hafi bæði lýst vilja til að afnema viðskiptaþvinganir á Rússa.
Uffe Ellemann segir ekkert leyndarmál að Le Pen sé í vasanum á Pútín, hún hafi fyrir hans orð fengið milljónir evra að láni frá banka undir stjórn Kremlverja. Samband Fillons og Pútíns sé óljósara. Fillon sé hvað sem öðru líður mun vinsamlegri í garð Kremlverja en þriðji meginframbjóðandinn, Emmanuel Macron, sem styðji öflugt samstarf innan NATO og ESB auk þess sem Rússum verði áfram refsað fyrir að innlima Krímskaga og sækja gegn Úkraínumönnum. Meginmarkmið Pútíns sé að blanda sér í innri stjórnmál Evrópuríkja til að veikja ESB og NATO, þess vegna verði að grafa undan Macron.
Fillon hefur fallið í skoðanakönnunum vegna hneykslis sem tengist opinberum greiðslum til fjölskyldu hans fyrir störf sem ekki hafa verið unnin. Frá miðjum febrúar hefur niðurstöðum allra kannanna í Frakklandi borið saman: Í fyrri umferð kosninganna sem fara fram eftir 20 daga sigra Le Pen og Macron. Í keppni þeirra í seinni umferðinni 7. maí eru miklar líkur á að Macron sigri. Uffe Ellemann segir að nú reyni Rússar að breyta þessari mynd með miðlun falskra upplýsinga.
Rússar njóti til dæmis aðstoðar frá Julian Assanges og WikiLeaks. Assange hafi látið boð berast um það frá hæli sínu í sendiráði Ekvador í London að hann eigi einhvern óþverra um Macron sem hann birti á réttu augnabliki. Nú hafi hins vegar verið flett ofan af íhlutun Rússa.