Home / Fréttir / Uffe Ellemann-Jensen segir rússneska sendiherrann segja tröllasögur um NATO

Uffe Ellemann-Jensen segir rússneska sendiherrann segja tröllasögur um NATO

Uffe Ellemann-Jensen
Uffe Ellemann-Jensen

Hörð orðaskipti hafa orðið milli M. Vanins, sendiherra Rússa í Kaupmannahöfn, og Uffe Ellemann-Jensens, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, á vefsíðu Berlingske.

Sendiherrann sagði sunnudaginn 29. október að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði á fundi Valdai International Discussion Club í Sotsjí 19. október 2017 svarað spurningu um hver hefðu verið stærstu mistök í samskiptum við Vesturlönd á þennan veg: „Alvarlegustu mistök okkar í samskiptum við Vesturlönd voru að við treystum þeim alltof mikið. Mistök Vesturlanda voru að þau skildu þetta traust sem veikleika og misnotuðu það.“

Síðan sakar sendiherrann Uffe Ellemann-Jensen um að blekkja lesendur Berlingske, vitandi eða óvitandi, um að NATO hafi ekki lofað að stækka til austurs.

Ráðherrann fyrrverandi ætti að kannast við að þáverandi framkvæmdastjóri NATO. Manfred Wörner, flutti ræðu í Brussel 17. mai 1990 og sagði: „Sú staðreynd ein að við ætlum ekki að hafa herafla NATO á svæðum fyrir austan Þýskaland veitir Sovétríkjunum fasta öryggistryggingu.“

Þá segir sendiherrann að í frásögnum af Moskvu-fundum sovéskra og bandarískra embættismanna 9. febrúar 1990 komi fram að James Baker, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið „skothelda tryggingu“ fyrir því að NATO mundi ekki færa sig „eina tommu í austur“ í skiptum fyrir samstarf um Þýskaland, sem þá var enn skipt milli austurs og vesturs.

Uffe Ellemann-Jensen svarar sendiherranum á Berlingske-vefsíðunni laugardaginn 4. nóvember og segir að aðför sendiherrans að sér feli í sér „alvarlega ásökun“. Sendiherrann segi enn eina tröllasöguna sem rússneska ríkisstjórnin hafi árum saman reynt að festa í sessi sem viðurkennda staðreynd í umræðunum.

Ellemann-Jensen segir sendiherrann fullyrða að í viðræðum um sameiningu Þýskalands ár árinu 1990 hafi verið gefin loforð um að NATO stækkaði ekki í austur.  Þetta mál hafi einfaldlega ekki verið rætt. Sjálfum Mikhaíl Gorbatsjov hafi þótt nauðsynlegt að vísa því á bug að fyrir lægi samningur um að NATO stækkaði ekki. Hann hafi gert þetta í október 2014 í blaði rússnesku ríkisstjórnarinnar, Rossiskaja Gazeta, þegar þess var minnst að 25 ár voru liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Þetta var alls ekkert rætt, sagði Gorbatsjov.

Uffe Ellemann-Jensen segir að Vanin sendiherra hljóti að þekkja texta lokaskjals ÖSE-leiðtogafundar í Istanbúl árið 1999. Þar segi m.a. í 8. grein að öll þátttökuríkin „staðfesta þann rétt sem sérhvert ríki hefur sjálft til að velja eða ákvarða á hvern hátt það hagar skipan öryggismála sinna, þar á meðal bandalagsaðild.“ Rússar rituðu undir þetta skjal.

Ellemann-Jensen bendir á að Vanin sendiherra noti tilvitnanir frá árinu 1990 þegar menn á Vesturlöndum vonuðu enn að þeir gætu treyst á samninga við Rússa. Þá samninga hafi Rússar brotið með innlimun Krímskaga og stríðsaðgerðum í Austur-Úkraínu. Nú reyni sendiherrann að breiða yfir þessi brot á alþjóðalögum með því að stunda upplýsingafölsun um það sem menn lofuðu og um var samið.

Þá minnir Ellemann-Jensen að Vanin sendiherra hafi haft uppi mótmæli og hótanir vegna þess að Danir og aðrar þjóðir við Eystrasalt hafi hafist handa við að endurreisa varnirnar sem þær sinntu ekki af því að þær lifðu í þeirri trú að Rússar myndu haga sér eins og sæmir góðum nágranna.

Þetta sé greinilega verkefni sem yfirmenn hans í Moskvu hafi falið honum að vinna. Þetta sé dálítið dapurlegt fyrir hann en fylgi starfinu. Ellemann-Jensen hvetur sendiherrann til að segja yfirmönnum sínum að Danir gleypi ekki tröllasögurnar sem honum hafi verið falið að kynna.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …