Home / Fréttir / Tyrkneskir smyglarar leita nýrra leiða til að koma fólki inn í ESB-lönd

Tyrkneskir smyglarar leita nýrra leiða til að koma fólki inn í ESB-lönd

A151

Smyglarar á flótta- og farandfólki huga að nýjum leiðum til að koma viðskiptavinum sínum frá Tyrklandi til Evrópu eftir að lokað hefur verið á leiðirnar milli Tyrklands og grísku eyjanna í Eyjahafi.  Frankfurter Allgemeine Zeitung segir frá þessu sunnudaginn 27. mars.

Þýska blaðið segir að smyglarnir búi sig undir að hefja siglingar til Ítalíu í fyrstu viku apríl og bregðast þannig við mikilli ásókn fólks. Ætlunin sé að nota lítil flutningaskip og fiskiskip tili að ferja fólk frá Anatalyu í Tyrklandi, tyrknesku borginni Mersin, skammt frá landamærum Sýrlands og frá grísku hafnarborginni Piraeus, skammt frá Aþenu.

Sagt er að það kosti 3.000 til 5.000 evrur (420.000 til 700.000 ISK) fyrir einn að sigla með þessum skipum sem er miklu hærra en það sem menn greiða fyrir að sigla frá Tyrklandi til grísku eyjanna.

Að komast frá Grikklandi norður Evrópu verður sífellt erfiðara. Landamærum margra landa hefur verið lokað og ESB hefur samið við tyrknesk stjórnvöld um að stöðva ferðir með fólk til grísku eyjanna. Hefur snardregið úr slíkum bátsferðum.

Í grein FAZ um þetta segir að  smyglararnir stefni að því að bjóða tvær ferðir í viku og að minnsta kosti einn þeirra segist geta flutt 200 manns í hverri ferð. Þá er farþegum bent á að halda sig neðan þilja þar til skipin eru komin á alþjóðlega siglingaleið.

Fyrir utan að farandfólk bíður eftir að komast sjóleiðis frá Tyrklandi og Grikklandi bíða hundruð þúsunda manna þess að komast yfir Miðjarðarhaf frá Líbíu til Ítalíu, að sögn ESB-embættismanna. Það sem af er þessu ári hefur ítalska innanríkisráðuneytið skráð 14.000 aðkomumenn til landsins.

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …