
Tyrknesk yfirvöld herða enn tökin á fjölmiðlum í landinu eftir misheppnuðu valdaránstilraunina föstudaginn 15. júlí. Miðvikudaginn 27. júlí sagði í lögbirtingablaði Tyrklands að þremur fréttastofum hefði verið lokað, 16 sjónvarpsstöðvum, 23 hljóðvarpsstöðvum, 45 dagblöðum, 15 tímaritum og 29 útgáfufyrirtækjum.
Sagt er að fjölmiðlarnir hafi verið undir handarjaðri Gülen-hreyfingarinnar svonefndu. Erdogan Tyrklandsforseti og AKP-flokkur hans herða tök sín á öllum þáttum tyrknesks þjóðlífs. Í vestrænum fjölmiðlum er litið á þetta sem átök milli AKP og Gülen-hreyfingarinnar. Hér í meðfylgjandi grein sem er þýdd úr þýsku eru hins vegar færð rök fyrir því að í raun séu átökin í Tyrklandi milli þeirra sem vilji aðskilnað ríkis og trúarbragða og hinna sem vilja innleiða islamska stjórnarhætti, milli kemalista og íslamista.
Greinin er eftir Bassam Tibi (72 ára) sem var í 28 ár prófessor í alþjóðasamskiptum við háskólann í Göttingen. Hann ólst upp í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Árið 1962 kom hann sem námsmaður til Frankfurt og lagði stund á félagsfræði. Hann ávann sér einkum nafn með ritum sínum um íslam. Hann var meðal annars gestaprófessor í Harvard, Kairo og St. Gallen í Sviss. Strax árið 1998 varaði hann við vexti íslamisma í Tyrklandi. Bilkent-háskóli í Ankara sleit samstarfi við hann árið 2009 eftir að Tibi hafði gagnrýnt Tyrkland í fræðiritgerð. Tibi býr í Göttingen og er þýskur ríkisborgari síðan 1976. Hann segist vera trúaður en siðbættur múslimi.
Hér hefst greinin eftir Bassam Tibi, hún birtist upphaflega í svissneska dagblaðinu Basler Zeitung:
Erdogan lýsir yfir neyðarástandi í Tyrklandi og afnemur þar með réttarríkið opinberlega en ekki aðeins laumulega. Degi síðar bætir hann við: Þetta neyðarástand getur varað lengur en í þrjá mánuði. Þessi viðbót var raunar ónauðsynleg þar sem Erdogan hefur stjórnað Tyrklandi árum saman í anda einræðis. Einræðið má rekja til íslamísks flokks, AKP-flokksins, en ekki til eins manns. Nú þegar þýskir íslamfræðingar dusta rykið af gömlu hugtaki til þess að lýsa Erdogan sem nýjum soldána þá eru þeim mislagðar hendur. Soldánsveldi og einræði eru alls óskyld.
Tyrkneskir lýðræðissinnar sem ræða við mig hafa árum saman kvartað undan því í einkasamtölum að undir stjórn AKP sé ekki lengur unnt að segja það sem manni býr í brjósti í Tyrklandi. Afnám skoðanafrelsis er fyrsta skrefið í átt til alræðisstjórnar. Undarlegt er hvernig stjórnmálamenn í ESB bregðast við neyðarástandinu án þess að þeir viti nokkuð um raunverulega stöðu mála í Tyrklandi. ESB hefur lagt góðan skerf af mörkum til að styrkja vald Erdogans.
Þetta á einnig við um þýsku sambandsstjórnina, daginn sem valdaránstilraunin var gerð sendi kanslarinn opinbera stuðningsyfirlýsingu til ríkisstjórnar Tyrklands með þeim rökum að Erdogan væri kjörinn forseti – þar með lýsti hún stuðningi við valdboð AKP. Hitler var einnig „kjörinn ríkiskanslari“. Karl Popper hefur frætt okkur um að í lýðræði felst mun meira en kosningar. Evrópskir stjórnmálamenn sem fella nú krókódílstár vegna lýðræðis í Tyrklandi eftir að lýst hefur verið yfir neyðarástandi þar, létu þau orð falla daginn eftir að andstaðan við Erdogan hafði verið brotin á bak aftur að lýðræðið hefði borið sigur úr býtum. Strax þar á eftir voru ekki aðeins forystumenn kemalista í hernum handteknir heldur einnig um 5.000 dómarar og lögfræðingar auk hundruð blaðamanna úr röðum kemalista. Hvernig er unnt að kalla þetta sigur lýðræðisins?
Uppræting kemalismans
Strax í upphafi er nauðsynlegt að átta sig á því að þetta snýst ekki um persónu Edogans. Í Tyrklandi snýst þetta um íslamisma AKP. Til samanburðar má minna á að einræði nazista í Þýskalandi frá 1933 til 1945 snerist ekki aðeins um persónulegt einræði Hitlers heldur, eins og Hannah Arendt hefur leitt í ljós, um alræðisvald NSDAP [þýska nazistaflokksins]. Í Tyrklandi er ekki háð barátta gegn valdi Erdogans heldur er um að ræða stjórnmálalegan og samfélagslegan árekstur milli íslamisma og kemalisma.
AKP Erdogans notar valdaránstilraunina til að þurrka endanlega út það sem eftir er af kemalisma. Allt frá því að AKP náði völdum, það er frá árinu 2002, hefur uppræting kemalisma í Tyrklandi verið á dagskrá tyrkneskra íslamista sem hafa ekki komið á íslamísku lýðræði heldur alræðisvaldi í Tyrklandi. Til að skilja hvað er að gerast núna í Tyrklandi verður að minnast þess að frá því að veraldlega, kemalista lýðveldið Tyrkland kom til sögunnar árið 1923 fram að valdatöku AKP í Tyrklandi árið 2002 var Tyrkland nútímalegasta, framfarasinnaðasta og lýðræðislegasta ríki allra ríkjanna 57 sem búa við íslamska siðmenningu. Til þessa dags skilja álitsgjafar í vestrænum fjölmiðlum ekki að AKP er íslamskur flokkur en ekki íslam-íhaldsflokkur.
Löngu áður en valdaránstilraunin var gerð í júlí á þessu ári hafði AKP tekist að breyta heildarsvip kemalíska lýðveldisins á róttækan hátt. Kemalistar beittu sér fyrir lýðræðislegri nútímavæðingu og afhelgun þjóðlífsins. Íslamistar fylgja gagnstæðri stefnu. Þess vegna hafa íslamistarnir undir stjórn foringja síns, Erdogans, stig af stigi unnið markvisst að því að afmá það sem Kemal Atatürk og samstarfsmenn hans lögðu til grundvallar þegar þeir stofnuðu lýðveldið. Við valdaránstilraunina í júlí var aðeins eftir að hreinsa hluta af dómskerfinu, þá dómara sem stóðu eins og klettar og sögðu fyrirmæli Erdogans um að handtaka blaðamenn brjóta gegn stjórnarskránni. Þessir dómarar úr röðum kemalista eru nú á bak við lás og slá.
Árið 2000 tók ég þátt í umræðuhópi í World Economic Forum í Davos með jafnaðarmanninum Bülent Ecevit sem þá var forsætisráðherra Tyrklands. Þarna stóðum við saman og deildum við vestur-evrópska stjórnmálamenn. Vegna vanþekkingar á Tyrklandi héldu þeir því hiklaust fram við Ecevit að Tyrkir gætu aðeins fengið tækifæri til aðildar að ESB ef vald Þjóðaröryggisráðsins yrði takmarkað. Innan þessa ráðs nutu áður fyrr hermenn úr röðum kemalista næstum sama réttar og stjórnlagadómarar og forystumenn í stjórnmálum við töku ákvarðana.
Grunlausir Vesturlandabúar
Í Davos virtist enginn vestur-evrópskur stjórnmálamaður skilja eftirfarandi boðskap Ecevits. Hann sagði: „Við Tyrkir búum í ungu veraldlegu og lýðræðislegu lýðveldi í heimi íslams þar sem ekki hefur enn tekist að finna traustan grunn undir lýðræði og afhelgun í þeim skilningi að skil séu gerð milli stjórnmála og trúarbragða. Við þessar aðstæður getur lýðveldi okkar aðeins þrifist á meðan kemalistar, einnig innan hers og dómskerfisins, halda völdum og tryggi þannig stöðugleika og veraldlega stjórn.“ Ekki liðu nema tvö ár þar til þessi staða breyttist við að AKP komst til valda. Af þrýstingi ESB á Tyrki hefur meðal annars leitt að kemalistar innan stjórnkerfisins hafa veikst en íslamistar styrkt stöðu sína. Í því felst engin samsæriskenning að segja að AKP, flokkur íslamista, geti einnig þakkað ESB að hann hefur hafist til valda.
Við þessa sögu frá World Economic Forum í Davos má enn bæta: Þegar fjármálakreppan stóð sem hæst spurði Financial Times í leiðara hvers vegna ekki væru til neinir gáfaðir hagfræðingar á Vesturlöndum sem hefðu getað sagt fyrir um kreppuna. Svarið var raunar gefið í fyrirsögn leiðarans: People ignore predictions they dislike: Fólk hefur að engu spádóma sem falla því ekki í geð. Þessi fullyrðing á einnig við um Tyrkland. Það fellur ekki að pólitískum rétttrúnaði í Evrópu að gera grein fyrir íslamisma. Á Vesturlöndum er ég í hópi þeirra sérfræðinga um Tyrkland sem hvað eftir annað hafa varað við við íslamsima og þess vegna hefur verið settur múll á mig.
Tyrkland nútímans
Hvað er annars kemalismi og hvað er íslamismi? Ég skýri þetta hvoru tveggja með vísan til Tyrklands. Kemalismi er stjórnarfarsheimspeki Kemals Atatürks, stofnanda Tyrklands nútímans. Kjarni hans felst í sex grunnreglum sem kemalistar verja, þær eru: 1. Lýðveldishugsjón, 2. ríkisforysta, ríkið beitir sér fyrir breytingum, 3. almannavilji í anda Rousseaus um volonté generale en ekki lýðskrum, 4. aðskilnaður ríkis og kirkju að franskri fyrirmynd frá 1905, opinbera hlið samfélagsins er afhelguð, 6. þjóðerniskennd allra Tyrkja án tillits til uppruna þeirra og 6. umbótastefna.
Ég hef búið í Tyrklandi og kynnst Tyrkjum úr röðum kemalista sem framfarasinnuðum nútímamönnum. Þess vegna verð ég jafnan æstur þegar ég sé þýska álitsgjafa leggja kemalisma og fasisma að jöfnu. Í því felst rangt mat Þjóðverja á menningu annarra af því að þeir beina huganum að eigin nazista-fortíð. Í augum frjálslyndra múslima sem líta á kemalisma sem fordæmi fyrir siðmenninguna í heild er það til marks um þýska ófyrirleitni að tengja Kemal Atatürk við óþverra nazista.
Í Tyrklandi hef ég séð fjögur svið þar sem samfélagslegra áhrifa kemalisma gætir: 1. veraldlegt dómskerfi, 2. veraldlegur herafli í þágu ríkisins; ég hef tekið þátt í mörgum NATO-verkefnum í Tyrklandi þar sem tyrkneskir foringjar hafa haft forystu og aldrei hef ég hitt fasista í þeim hópi; foringjarnir hljóta stjórnarfarslega þjálfun í veraldlegu lýðræðiskerfi og þar ríkir enginn fasismi, 3. stofnanir í þágu veraldlegrar menntunar í anda kemalisma (skólar, háskólar); 4. þjóðaröryggiskerfið.
Frá 2002 fylgir AKP stefnu sem miðar skipulega að því að veikja og síðan fella allar ofangreindar súlur kemalismans. Fjórir íslamiskir stjórnmálaflokkar eru forverar AKP. Stjórnlagadómstóll Tyrkland batt enda á starfsemi allra þessara fjögurra stjórnmálaflokka þar sem starfsemi þeirra var talin brjóta í bága við stjórnarskrána. Einnig hefði verið unnt að banna starfsemi AKP sem brot á stjórnarskránni þar sem ákæruvaldið hóf málarekstur gegn flokknum vegna grunsemda um íslamisma hans. Þegar málið var tekið fyrir í stjórnlagadómstólnum féll bann á flokkinn á einu atkvæði. Allir viðkomandi saksóknarar og dómarar sitja nú í fangelsi. Iðrun verður stjórnlagadómurunum ekki til bjargar. Með einu atkvæði hefði verið unnt að koma í veg fyrir AKP-Erdogan-ógæfuna. Undir stjórn AKP hefur þegar verið komið á fót íslamísku menntakerfi með Imam-Hatip-skólum (Imam Hatip þýðir: imam predikar). Innan þessa kerfis er nú unnið að því að virkja og skapa íslamiska gagn-elítur gegn veraldlegum elítum kemalista. Í Imam-Hatip-skólum læra nemendur arabísku í stað ensku og frönsku; þar er stunduð trúarleg innræting í stað þess að veita fræðslu í veraldlegum nútímafræðum og vísindum.
Eiturslanga Gülens
Fullyrt að Gülen-hreyfingin hafi staðið að baki valdaránstilrauninni. Nú er kennimaðurinn Gülen miklu voldugri og langtum gáfaðri en Erdogan. Hann er í raun hættulegri islamisti en Erdogan sjálfur. Í fræðilegri ritgerð eftir Bayram Balici er fullyrt að Gülen-hreyfingin vilji fyrst breyta Tyrklandi í íslamskt ríki og síðan verði lögð áhersla á að útbreiða íslam um heim allan. Styrkur Gülen-hreyfingarinnar sem sérfræðingar líkja við eiturslöngu, felst í að lauma sér inn í stofnanir á grunni íslamískrar innrætingar einkum í skóla.
Út á við sýnir Gülen-hreyfingin annað andlit, hún segist vilja stuðla að „Samræðum abrahamistískra trúarbragða“. Undir þessum merkjum hefur Gülen meira að segja tekist að fá áheyrn hjá páfanum og er hún notuð í áróðri. Samhliða því að sýna samræðuandlitið fylgir Gülen-hreyfingin hins vegar stefnu íslamvæðingar. Kúgunarstefnu Erdogans er ekki svo mjög beint gegn Gülen-fylgjendum heldur gegn kemalistum. Það er alls ekki unnt að ímynda sér að kemalistar geti verið félagar í íslamískri hreyfingu Gülens. Fram til 2013 voru Gülen og Erdogan gamlir félagar og nátengdir. Í bestu úttekt á Gülen-hreyfingunni sem ég hef lesið Fetullah Gülen’s Grand Ambitions eftir Rachel Sharon-Krespin segir þetta með vísan til tyrkneskra heimilda: AKP og Gülen-hreyfingin hafa sömu markmið og sömu hugsjónir. Fjandskapurinn sem ríkir núna milli Erdogans og Gülens stafar einungis af persónulegum ágreiningi innan ramma íslamismans. Höfuðágreiningurinn er á milli íslamisma og kemalisma.
Tyrkland nútímans hefur í einn áratug verið í greip íslamistanna í AKP. Erdogan notar valdaránstilraunina til þess að hreinsa út leifarnar af kemalismanum. Það er ranghugmynd fólks sem veit ekkert um Tyrkland að líkja ofríkisstjórn Erdogans við nýtt soldánsveldi. Erdogan er afsprengi islamisma AKP. Flokkurinn líkist mafíu eins Gülen-hreyfingin og ræður yfir risavöxnu viðskiptaveldi sem ekki er unnt að tengja persónu Erdogans.
Spá mín er þessi: Eins og í arabalöndunum þar sem ríkiskerfið hrundi eftir arabíska vorið hrynur ríkiskerfið í Tyrklandi í fyrirsjáanlegri framtíð og við það mun landið líklega verða eins og nágrannaríkið Sýrland. Þetta ferli er þegar hafið.
(Basler Zeitung, birt 23. júlí 2016)