Home / Fréttir / Tyrkland: Hreinsunum Erdogans líkt við hreinsanir Stalíns

Tyrkland: Hreinsunum Erdogans líkt við hreinsanir Stalíns

Men sit atop a military vehicle in front of Sabiha Airport, in Istanbul

Um hádegisbil miðvikudaginn 20. júlí höfðu hreinsanir tyrkneskra yfirvalda eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi að kvöldi föstudags 15. júlí náð til 50.000 manna. Þá beindist athyglin að skólafólki og höfðu háskólakennarar fengið fyrirmæli að halda sig innan landamæra Tyrklands, væru þeir utan lands ættu þeir að snúa heim.

Athygli fjölmiðlamanna og álitsgjafa beinist að þeirri staðreynd að á meðan enn var óljóst hvort valdaránstilraunin heppnaðist í Tyrklandi eða ekki sagðist Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti vita hver bæri ábyrgð á henni: Fetullah Gülen, tyrkneskur kennimaður, sem leiðir hreyfingu í þágu samtala milli trúarbragða. Gülen ákvað árið 1999 að fara í útlegð til Bandaríkjanna.

Á vefsíðu blaðsins New Europe í Brussel segir miðvikudaginn 20. júlí að undanfarna mánuði hafi tyrknesk stjórnvöld beitt sér fyrir alls kyns árásum á vini Gülens, stuðningsmenn og stofnanir í Tyrklandi hvort sem sannað er eða ósannað að Gülen standi að baki þeim. Yfirvöldin hafa hrifsað banka og fjölmiðla í sínar hendur, þar á meðal útbreidda dagblaðið Zaman, og tekið í eigin þjónustu. Með þessu hafi hreyfingu Gülens ekki aðeins verið veitt högg heldur hafi það lamað lýðræði í Tyrklandi.

Með því að hirða bankann staðfesti Erdogan að enginn sem ekki standi með stjórn hans geti látið að sér kveða á fjármálamarkaðnum. Með því að hirða fjölmiðlana staðfesti hann að prentfrelsi ríki ekki í Tyrklandi, segir New Europe. Þá segir í blaðinu:

„Nafn Fetullahs Gülens var alltaf nefnt fyrir allar þessar ofríkis-aðgerðir og á meðan á þeim stóð. Er þetta þráhyggja hjá Erdogan? Er Gülen í raun svona valdamikill og alls ráðandi óvinur ríkisstjórnar Tyrklands?

Líklega ekki. Meiri líkindi eru á að Erdogan noti nafn Gülens í öðrum tilgangi. Úr því að Erdogan hefur ákveðið að láta til skarar skríða gegn öllum pólitískum öflum sem eru á móti honum – frá Kemalistum til vina Kúrda, þarfnast hann „nafns“, „óvinar“, „tákns“ sem fulltrúa óvinarins. Er það til heimabrúks en þó aðallega til alþjóðabrúks!

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ofríkis- eða einræðisstjórn beitir slíkum aðferðum. Þrákelkni Erdogans við að tengja nafn Gülens við allt milli himins og jarðar sem snýr að gagnrýni á hann eða andstöðu við hann í Tyrklandi minnir aðeins á annað sorglegt dæmi úr sögunni. Samband Jósefs Stalíns og Leons Trotskys. Má í stuttu máli segja að Gülen sé tyrkneska útgáfan á Trotsky? […]

Stalín notaði hótanir frá Trotsky sem fullkominn fyrirslátt til að ryðja hverjum þeim úr vegi sem hann taldi standa gegn sér og treysti þannig vald sitt.

Nú virðist Gülen í fyrirsláttar-hlutverki Trotskys þegar efnt er til stalínískra hreinsana í Tyrklandi – hreinsana sem ná til hersins, dóms- og skólakerfisins.

Lengra nær samanburðurinn þó ekki.“

Minnt er á að Erdogan sé þjóðhöfðingi í ríki sem hafi einstaka geópólitíska þýðingu en glími við margvíslan vanda. Efnahagur Tyrklands sé til dæmis talinn að hruni kominn, ekki hafi tekist að leysa ágreining við Kúrda og þjóðin sé klofinn í afstöðu til þess hvort draga eigi úr veraldlegum stjórnarháttum til að auka pólitískt rými fyrir íslam. Þá sé hætta á alþjóðlegri einangrun.

Auk þess hafi sveiflukennd afstaða Erdogans leitt til þess að Trykir hafi flækst inn í borgarastríðið í Sýrlandi. Andstaða hans við Assad-stjórnina í Sýrlandi og óbein, skuggaleg samskipti hans við hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) hafi veikt hann á sviði stjórnmála og öryggismála. Erdogan hafi einnig skapað spennu í samskiptum sínum við Egyptaland. Hann hafi niðurlægt sig með því að biðja Vladimír Pútín Rússlandsforseta afsökunar á tyrkneski flugherinn skaut niður rússneska herþotu í nóvember 2015.

Nú hafa fréttir borist um að tyrknesku flugmönnunum hafi verið vikið úr starfi og sætt handtöku vegna tengsla þeirra við valdaránsmenn. Líklegt er að Erdogan og Pútín hittist á næstunni.

New Europe segir að annars vegar festi Erdogan ofríkis-stjórn sína í sessi en hins vegar veiki hann stöðu og innviði lands síns á örlagatímum fyrir heimshluta þess. Þetta skipti ESB ekki síst máli, tengsl Tyrkja við sambandið séu mikil auk þess sem afstaða tyrkneskra stjórnvalda skipti miklu fyrir stefnu, öryggi og orkumál ESB.

Samstarfsþjóðir Tyrkja verði að knýja á um að þeir hafi lýðræði í heiðri. Erdogan hafi nú í hrokafullum skipunartóni krafist framsals á Gülen frá Bandaríkjunum. Það yrði alvarlegt lýðræðislegt áfall yrði Bandaríkjastjórn við kröfu Erdogans.

Með því að verja Gülen séu menn ekki að slá skjaldborg um skoðanir hans heldur efla varðstöðuna um lýðræði og mannréttindi í Tyrklandi. Varðstöðu sem takmarkist ekki við Tyrkland heldur nái til Bandaríkjanna og ESB.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …