
Tyrknesk yfirvöld tilkynntu laugardaginn 23. júlí að þau hefðu handtekið Halis Hanci „hægri hönd“ kennimannsins Fetullahs Gülens auk frænda Gülens. Þá hefur 2.500 manna sérþjálfuð lífvarðasveit Tyrklandsforseta verið leyst upp og um 300 lífvarðanna hafa verið handteknir.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Gülen og menn hans standa að baki misheppnuðu valdaránstilrauninni. Erdogan og Gülen voru samherjar þar til Gülen ákvað að fara í útlegð til Bandaríkjanna. Þeir vilja báðir umbreyta tyrknesku samfélagi frá arfleifð Kemals Atatürks, föður nútíma Tyrklands, sem vildi skilja á milli veraldlegra stjórnarhátta og íslam. Erdogan og Gülen vilja báðir innleiða íslamisma í tyrkneska stjórnkerfið en greinir á um leiðir.
Talsmaður forsetans sagði að Halis Hanci hefði komið til Tyrklands tveimur dögum áður en reynt var að steypa Erdogan og stjórn hans af stóli. Hanci var handtekinn ásamt frænda Gülens í Trabzon-héraði við Svartahaf.
Neyðarlög gilda nú í Tyrklandi í þrjá mánuði og hefur Erdogan ákveðið að lögregla geti haft grunaða í haldi í allt að 30 dögum án þess að bera á þá sakir. Þá hefur hann einnig ákveðið að rúmlega 1.000 skólum skuli lokað vegna undirróðurs innan þeirra.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, tilkynnti laugardaginn 23. júlí að lífvarðasveit forsetans hefði verið leyst upp og tæplega 300 lífvarðanna hefðu verið handteknir. Um 2.500 sérþjálfaðir hermenn eru í sveitinni.
„Lífvarðasveit forsetans er úr sögunni, hún þjónar engum tilgang, það er engin þörf fyrir hana,“ sagði forsætisráðherann í sjónvarpsviðtali.
Talið er að nú hafi 13.000 manns verið handteknir í Tyrklandi sem óvinir ríkisins í hópnum eru margir hermenn, lögreglumenn, dómarar, kennarar og opinberir starfsmenn.