Home / Fréttir / Tyrkland: Erdogan tapar illa í sveitarstjórnarkosningum

Tyrkland: Erdogan tapar illa í sveitarstjórnarkosningum

Andstæðingar Erdogans fagna í Istanbúl.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Tyrklandi vann stórsigur í sveitarstjórnarkosningum sunnudaginn 31. mars og stjórnar tveimur lykilborgum landsins, Istanbúl og Ankara.

Litið er á úrslitin sem þungt högg á Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta sem ætlaði sér að endurheimta völdin í borgunum. Hann stjórnaði sjálfur kosningabaráttu flokks síns í Istanbúl. Erdogan ólst þar upp og varð borgarstjóri á sínum tíma.

Núverandi borgarstjóri, Ekrem Imamoglu, sem sigraði fyrst í borginni árið 2019 vann sigur að nýju í nafni CHP-stjórnarandstöðuflokksins sem vill aðskilnað stjórnmála og trúarbragða. Erdogan höfðar hins vegar mjög til íslam í stjórnmálastefnu sinni og störfum.

Íbúar Istanbúl eru um 16 milljónir, af 85 milljónum íbúum Tyrklands, og hafði Erdogan uppi stór orð um nýja tíma í borginni undir forystu flokks síns, AK-flokksins. Ekrem Imamoglu tryggði sér hins vegar meira en 50% fylgi og munaði rúmlega 11 stigum á honum og frambjóðanda AK-flokksins eða um milljón atkvæðum.

BBC segir að nú hafi það gerst í fyrsta sinn síðan Erdogan komst til valda fyrir 21 ári að flokkur hans býður ósigur um landið allt í kosningum.

CHP sigraði einnig í fjórðu stærstu borg Tyrklands, Bursa og Balikesir, í norðvesturhluta landsins og hélt völdum í Izmir, Adana og Antalya.

Erdogan forseti (70 ára) viðurkenndi að úrslitin væru ekki á þann veg sem hann hafði vonað en sagði við stuðningsmenn sína í Ankara að þau væru ekki nein endalok heldur kölluðu á ný vinnubrögð. Hann situr sem forseti til 2028 og sagði fyrir kosningar að það væri í síðasta sinn sem hann leiddi flokk sinn í sveitarstjórnarkosningum.

Edogan hefur aukið miðstjórnarvald forseta Tyrklands í stjórnartíð sinni en borgarstjórar, kjörnir beinni kosningu, hafa umtalsverð áhrif.

Stjórnmálafræðingurinn Berk Esen sagði við BBC að CHP-flokkurinn hefði nú valdið „stærsta kosningaósigri Erdogans á öllum ferli hans“ og náð sínum besta árangri síðan 1977.

Verðbólga er nú um 67% í Tyrklandi og vextir um 50%.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …