Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti sig sigurvegara í forsetakosningunum sem fram fóru sunnudaginn 24. júní. Opinberar tölur sýndu að hann hefði hlotið 53% atkvæða. Þar með er ljóst að ekki verður efnt til annarrar umferðar við val á forseta Tyrklands.
Einnig var kosið til þings Tyrklands sunnudaginn 24. júní og sagði ríkisfréttastofan Anadolu að flokkur Erdogans, Réttlætis- og þróunarflokkurinn hefði hlotið mest fylgi, 43%, sem dugar honum til að halda meirihuta í samvinnu við Þjóðernishreyfinguna.
Erdogan flutti stutt sjónvarpsávarp við hliðið á einum bústað hans í Istanbul að kvöldi 24. júní. Hann lýsti yfir sigri bæði í forseta- og þingkosningunum, sér hefðu borist óopinberar tölur og úrslitin væru skýr.
„Svo virðist með þjóðin hafi falið mér að gegna áfram skyldum forsetaembættisins og treyst okkur fyrir mjög mikilli ábyrgð á þingi,“ sagði hann. „Tyrkir hafa sýnt lýðræðislegt fordæmi með kjörsókn sem nálgast 90%. Ég vona að sumir verði ekki með ögranir til að dylja eigin mistök.“
Hann sagðist ætla að fara til höfuðborgarinnar Ankara til að flytja hefðbundna sigurræðu af svölum höfuðstöðva flokks síns.
Talsmenn helsta stjórnarandstöðuflokks, Lýðveldisflokks fólksins (CHP) mótmæltu þessu sigurtali forsetans og töldu að aðeins brot af atkvæðum hefði verið talið.
Muharrem Ince, forsetaframbjóðandi CHP, hvatti stuðningsmenn sína til að hverfa ekki frá kjörstöðum fyrr en að morgni mánudags 25. júní til að verjast kosningasvikum.