Home / Fréttir / Tyrkland: Erdogan flýtir þingkosningum í von um að halda stöðu sinni

Tyrkland: Erdogan flýtir þingkosningum í von um að halda stöðu sinni

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.

 

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kom á óvart í fyrri viku með því að flýta kosningum sem áttu að vera í nóvember 2019 til 24. júní 2018. Fyrir ákvörðun forsetans eru taldar þrjár ástæður: flokkspólitískar, efnahagslegar og hernaðarlegar.

Stjórnmál

Stjórnmálaskýrendur segja að með ákvörðun sinni hafi forsetinn viljað taka frumkvæði gagnvart stjórnarandstöðuflokkunum sem hafa rætt saman um kosningabandalag gegn honum. Með því að stytta tímann til kosninga gefist þeim ekki tóm til að hrinda áformum sínum í framkvæmd.

Þá er ekki ljóst hvort Góði flokkurinn, IYI. Nýr mið-hægriflokkur, hættulegur Erdogan, takist að ná vopnum sínum á svo skömmum tíma. Til að geta boðið fram verða flokkar að hafa haldið fyrsta landsfund sinn minnst sex mánuðum fyrir kjördag og eiga flokksfélög í minnst helmingi allra bæja í Tyrklandi.

Góði flokkurinn hélt fyrsta landfund sinn í desember 2017 en ekki er ljóst hvort þessi fundur ræður úrslitum eða fyrstu fundir í einstökum borgum – lokafundur Góða flokksins af því tagi var í mars 2018. Úrskurðarvaldið er í höndum landskjörstjórnar. Forystumenn Góða flokksins óttast að hún miði við marsfundinn og einmitt þess vegna hafi Erdogan flýtt kjördegi.

Meral Aksener stofnaði Góða flokkinn haustið 2017 þegar hún klauf sig frá þjóðernissinnaða MHP-flokknum, sem hallast að Réttlætis og þróunarflokki (AK) Erdogans í mörgum málum.

Nýjustu kannanir sýna að AK-flokkinn með 42% fylgi, Góða flokkinn með 20,02%. CHP er helsti stjórnarandstöðuflokkurinn er með 20,01%, MHP 7,3% og kúrdíski HPD-flokkurinn með 9%. Könnunarfyrirtæki hliðholl ríkisstjórninni spá Góða flokknum enn minna fylgi, hann nái ekki 10% sem er nauðsynlegt til að fá mann á þing.

Efnahagsmál

Fyrir utan þessar pólitísku ástæður segja stjórnmálaskýrendur að líklegasta skýringin á því að kosningunum sé flýtt sé versnandi efnahagsástand sem spilli fyrir ríkisstjórninni jafnt og þétt.

Vegna lækkunar lírunnar, tyrkneska gjaldmiðilsins, um meira en 50% gagnvart dollar undanfarin fimm ár eykst verðbólga og er nú um 11%. Þá hefur áhugi erlendra fjárfesta á Tyrklandi minnkað til mikilla muna vegna stjórnarhátta Erdogans.

Hermál

Erdogan segir að hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn her Kúrda í Afrin, í Norður-Sýrlandi, og í Írak hafi leitt til óvissu í Tyrklandi og með kosningum skapist stöðugleiki að nýju.

Í fyrstu sameinaði hernaðurinn gegn Kúrdum marga stjórnmálahópa en síðan hefur gætt vaxandi óánægju. Margir hafa fallið í valinn og hundruð manna sætt frelsissviptingu vegna andmæla við stríðsaðgerðirnar.

Tyrkneska fréttastofan Anadolu segir 54 tyrkneska hermenn hafa fallið í hernaðinum. Eins og við er að búast berast háværustu mótmælin frá Kúrdum og samtökum þeirra. Þá eru einnig mörg stór almenn félagasamtök sem berjast gegn hernaðaraðgerðunum.

Snúist stríðsgæfan gegn tyrkneskum stjórnvöldum á vígvellinum yrði það hættulegt fyrir ríkisstjórnina. Hættan eykst eftir því sem lengur er barist og þess vegna kann Erdogan að þykja best að hafa kosningar sem fyrst til að minnka líkur á að stríðsreksturinn fæli kjósendur frá sér og flokki sínum.

 

Heimild: Euronews

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …