
Þáttaskil urðu í stríðinu í Sýrlandi miðvikudaginn 24. ágúst þegar Tyrkir sendu skriðdreka yfir landamærin til að aðstoða uppreisnarmenn við að ná bænum Jarabulus úr höndum Daesh (Ríki íslams) og stöðva jafnframt sókn Kúrda í norðurhluta Sýrlands. Enn fleiri tyrkneskir skriðdrekar voru sendir á þessar slóðir að morgni fimmtudags 25. ágúst.
Tyrkir hafa ekki áður beitt landher sínum í stríðinu í Sýrlandi. Þeir segjast ekki sætta sig við að félagar í Daesh búi lengur um sig svo nærri landamærum sínum en Jarabulus hefur verið mikilvægur áfangastaður fyrir þá sem eiga samskipti við Daesh. Sýrlandsstjórn brást illa við innrás Tyrkja og sakaði þá um brot á landsyfirráðarétti sínum. Rússar styðja Sýrlandsstjórn og telja sumir sérfræðingar að innrás Tyrkja spilli samskiptum rússneskra og tyrkneskra stjórnvalda á ný eftir að forsetar landanna hittust á fundi í St. Pétursborg fyrir skömmu.
Sókn Kúrda vestur með norðurlandamærum Tyrklands í kjölfar þess að Daesh er á undanhaldi veldur stjórn Tyrklands reiði og áhyggjum. Hún óttast að Kúrdum takist í Sýrlandi hið sama og í Írak að leggja undir sig norðurhluta landsins.
Ríkisstjórnir Tyrklands og Bandaríkjanna sömdu um það á sínum tíma að Tyrkir sættu sig við að Kúrdar hefðu landsvæði austan Eftrat-fljóts á sinu valdi. Jarabulus er vestan fljótsins og vilja Tyrkir að Bandaríkjamenn sem styðj Kúrda sjái til þess að þeir haldi sig austan Efrat-fljóts.
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Tyrkland miðvikudaginn 24. ágúst og ítrekaði kröfu til Kúrda að þeir héldu sig austan Efrats.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í útvarpsviðtali seint að kvöldi miðvikudags 24. ágúst að tyrkneski herinn mundi halda áfram sókn sinni eftir að hafa hrakið Daesh frá Jarabulus. Nú snerist málið um að hrekja hermenn Kúrda aftur austur fyrir Efrat-fljót.
„Við látum ekki staðar numið fyrr en það hefur tekist,“ sagði forsætisráðherrann. „Við höfum samið um það við Bandaríkjamenn að Kúrdarnir frá Manbij og svæðinu þar verða að hörfa austur yfir Efrat.“
Fikri Isik, varnarmálaráðherra Tyrklands, sagði fimmtudaginn 25. ágúst að Kúrdar hefðu viku til að koma sér austur fyrir fljótið. Hann áréttaði að tyrkneski herinn væri að „hreinsa“vígamenn Daesh á brott úr Jarablus.
Ekki er langt síðan hermenn sýrlenskra Kúrda náðu Manbij, vestan Efrat-fljóts, á sitt vald úr höndum Daesh.
Í tyrkneska blaðinu Hurriyet segir dálkahöfundurinn Abdulkadir Selvi að markmið hernaðaraðgerða Tyrkja sé að mynda svæði án „hryðjuverkahópa“ og takmarka sókn Kúrda. Hann sagði að 450 tyrkneskir hermenn hefðu farið inn í Sýrland á fyrsta degi sóknarinnar en bætti við að þeim kynni að fjölga í 15.000.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staðfesti miðvikudaginn 24. ágúst að Kúrdar hörfuðu nú í norðurhluta Sýrlands. Áður hafði Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagt að Kúrdar í Sýrlandi nytu ekki stuðnings Bandaríkjamanna nema þeir héldu sig austan Efrats.
Bandaríski flugherinn var tyrkneska innrásarliðinu í Sýrland til trausts og halds. F-16 orrustuþotur Bandaríkjamanna voru sendar til loftárása á stöðvar Jarabulus áður en skriðdrekar Tyrkja komu þangað.