Home / Fréttir / Tyrkir segja enga ástæðu til að biðjast afsökunar – nær væri að það kæmi hlut Rússa

Tyrkir segja enga ástæðu til að biðjast afsökunar – nær væri að það kæmi hlut Rússa

 

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands,.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands,.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sakaði ráðamenn í Moskvu um dylgjur eftir að Rússar héldu því fram að Tyrkir keyptu olíu af Ríki íslams. Rússar handtóku hóp tyrkneskra kaup- og fésýslumanna fimmtudaginn 26. nóvember. Talið er að þeim verði vísað úr landi.

Orðahnippingar og deilur magnast enn milli Rússa og Tyrkja eftir að tyrkneskar orrustuþotur skutu niður rússneskra þotu við landamæri Sýrlands þriðjudaginn 24. nóvember.

Strax eftir að vélinni og öðrum flugmanninum var grandað gáfu Rússar til kynna að Tyrkir væri „samverkamenn hryðjuverkamanna“ og þeir hefðu rekið rýting í bak Rússa. Erdogan hafnaði því með öllu fimmtudaginn 26. nóvember.

Í ræðu sinni sagði forseti Tyrklands að afstaða Tyrkja í garð Ríkis íslams hefði verið skýr frá upphafi. Um það þyrfti enginn að efast og bera Tyrki sökum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist hafa rift allri samvinnu við her Tyrkja þar á meðal hætt miðlun upplýsinga vegna hernaðaraðgerða í Sýrlandi.

Í Ankara, höfuðborg Tyrklands, segja menn enga ástæðu fyrir sig til að biðja Rússa afsökunar, Tyrkir hafi ekki gert annað en verja rétt sinn. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrkja, segist þó hafa sagt „samhryggist“ við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sem aflýsti heimsókn til Istanbúl þriðjudaginn 24. nóvember, daginn áður en ráðherrarnir ætluðu að funda í borginni.

Erdogan tók undir með utanríkisráðherranum um að ástæðulaust væri að biðja Rússa afsökunar. „Þurfi einhverjir að biðjast afsökunar eru það ekki við. Þeir sem brutu gegn lofthelgi okkar ættu að gera það. Flugmenn okkar og her, þeir gerðu ekki annað en skyldu sína, svara þeim sem brjóta gegn settum leikreglum. Að mínu mati er það kjarni málsins,“ sagði forsetinn við blaðið Today´s Zaman sem gefið er út á ensku í Tyrklandi.

Rússneska útlendingaeftirlitið lét handtaka 39 tyrkneska kaup- og fésýslumanna síðdegis fimmtudaginn 26. nóvember og sakaði þá um að koma til landsins án þess að hafa viðskipta-vegabréfsáritun. Mennirnir sátu ráðstefnu um landbúnaðamál í suðurhluta Rússlands.

Einn hinna handteknu sagðist ekki hafa vitað að hann þyrfti áritun. Við landamærin hefði þeim verið bent á að setja kross í box á áritunarskjalinu þar sem stóð „ferðamaður“. Annar í hópnum sagði að ekki hefði farið á milli mála að um hefndaraðgerð af hálfu Rússa væri að ræða vegna grönduðu flugvélarinnar.

Talið er að hópurinn verði sektaður og síðan rekinn úr landi.

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …