Home / Fréttir / Tyrkir kaupa loftvarnaeldflaugar af Rússum

Tyrkir kaupa loftvarnaeldflaugar af Rússum

 

Rússneskar S-400 flaugar í skotstöðu.
Rússneskar S-400 flaugar í skotstöðu.

Tyrkir og Rússar hafa samið um kaup Tyrkja á rússnesku loftvarnakerfi sem reist er á S-400 eldflaugum. Aldrei fyrr hefur aðildarþjóð NATO gert svo viðamikinn kaupsamning á vopnum við Rússa.

Að samningurinn um kaup Tyrkja á rússnesku loftvarnaeldflaugakerfinu S-400 verði nú undirritaður höfðu tyrkneskir fjölmiðlar eftir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta þriðjudaginn 12. september. Hann sagði að fyrsta greiðsla samkvæmt samningnum hefði þegar verið innt af hendi en hann er talinn 2,5 milljarða dollara virði.

Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt áform Tyrkja um vopnakaupin. Bandaríska varnarmálaráðuneytið telur að notkun rússneska kerfisins geti skapað tæknileg vandamál við hernaðarlegt samstarf innan NATO.

Samband Tyrkja og Rússa versnaði mjög árið 2015 eftir að tyrkneskir orrustuflugmenn skutu niður rússneska hervél skammt frá landamærum Sýrlands. Síðan hafa stjórnir landanna nálgast að nýju en samskipti Tyrkja og Bandaríkjamanna hafa versnað.

Stjórn Tyrklands mislíkar að Bandaríkjastjórn styður her Kúrda í Sýrlandi sem starfa við hlið Kúrda í Tyrklandi. Erdogan lítur á Kúrda sem óvini Tyrklands.

Rússar segja að S-400 eldflaugarnar dragi 400 km og unnt sé að miða á allt að 80 skotmörk samtímis, tveimur flaugum að hverju skotmarki.

Kortið sýnir hve langt má skjóta S-400 flaugum frá rússnesku flugherstöðinni í Sýrlandi.
Kortið sýnir hve langt má skjóta S-400 flaugum frá rússnesku flugherstöðinni í Sýrlandi.

Rússar settu upp S-400 kerfi við flugherstöð sína við Latakia í Sýrlandi í desember 2015 eftir að Tyrkir skutu niður rússnesku Su-24 hervélina við landamæri Sýrlands og Tyrklands.

Vladimir Kozhin, hernaðarráðgjafi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta sagði að samningurinn við Tyrki um S-400 kerfið félli „algjörlega að öryggishagsmunum okkar“. BBC segir að þetta skýri meðal annars óánægjuna meðal vestrænna ríkja.

Í tyrkneska blaðinu Hurriyet lét Erdogan í ljós óánægju yfir framkomu ónefndra vestrænna samstarfsþjóða sem krefðust „óheyrilegra fjárhæða“ fyrir hernaðarlega dróna. Hann sagði að í fyrri viku hefði tyrkneski herinn drepið 90 kúrdíska „hryðjuverkamenn“ með tyrkneskum drónum. Þeir hefðu verið smíðaðir vegna þess hve drónar frá Vesturlöndum væru dýrir.

„Okkur ber að gera öryggisráðstafanir til að verja land okkar,“ sagði forsetinn.

Mark Lowen, fréttaritari BBC í Tyrklandi, segir að kaupin á rússnesku flaugunum séu greinilega svar við því að Bandaríkjamenn og Þjóðverjar fjarlægðu Patriot-loftvarnaflaugar frá Tyrklandi. Tyrkir hvöttu til þess á árinu 2015 að bandamenn sínir innan NATO fjarlægðu ekki þessi loftvarnakerfi frá landamærunum gagnvart Sýrlandi.

Tyrkneska stjórnin sættir sig ekki heldur við að Bandaríkjastjórn vill ekki framselja Fethullah Gülen, tyrkneska kennimanninn, sem Erdogan segir að hafi staðið að baki valdaránstilrauninni í Tyrklandi sumarið 2016. Gülen hafnar allri aðild að tilrauninni.

Recep Tayyip Erdogan  Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

Jonathan Marcus, hermála-fréttaritari BBC, segir að ákvörðun Tyrkja um að kaupa S-400 flaugarnar af Rússum sé enn eitt merkið um að stjórnendur þeirra fjarlægist samvinnu við Vesturlönd. Tyrkir hafi leitað að nýju loftvarnakerfi í nokkurn tíma. Þeir hafi fyrir fjórum árum velt fyrir sér að kaupa kínverskt kerfi en fallið frá því vegna þrýstings innan NATO.

Ljóst sé að mjög erfitt verði eða jafnvel ógerlegt að fella rússneska kerfið inn í sameiginlegt loftvarnakerfi NATO.

Þegar litið er á vopnabúnað NATO-ríkjanna almennt er þar lítið um tæki og tól frá Rússlandi fyrir utan það sem fyrrverandi leppríki Sovétmanna í Varsjárbandalaginu fyrrverandi eiga enn í gömlum vopnabúrum sínum. Grikkir eiga einnig gamalt rússneskt loftvarnakerfi sem var upphaflega selt til stjórnarinnar á Kýpur.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …