Home / Fréttir / Tyrkir granda rússneskri orrustuþotu – njóta stuðnings NATO

Tyrkir granda rússneskri orrustuþotu – njóta stuðnings NATO

Su-24 þota á flugvelli í Sýrlandi.
Su-24 þota á flugvelli í Sýrlandi.

Tvær tyrkneskar F-16 þotur skutu niður Su-24 orrustuþotu Rússa þriðjudaginn 24. nóvember. Tyrkir segja að rússneska vélin hafi farið inn í lofthelgi Tyrklands. Rússar segja að vélin hafi verið yfir Sýrlandi. Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að Rússar hafi fengið „stungu í bakið“.  Afleiðingarnar verði „alvarlegar“. NATO lýsir stuðningi við Tyrki.

Fastafulltrúar NATO-ríkjanna komu saman til fundar í Atlantshafsráðinu í Brussel síðdegis þriðjudaginn 24. nóvember að ósk Tyrkja. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði NATO standa með Tyrkjum og hvatti hann til þess að sýnd yrði „stilling“.

Stoltenberg sagði á blaðamannafundi að ástandið væri alvarlegt en sagðist eindregið vona að Tyrkir og Rússar ræddu málið sín á milli.

Reuters-fréttastofan segir að innan NATO standi ekki allir fyrirvaralaust með Tyrkjum. Þær raddir hafi heyrst að tyrknesku vélarnar hefðu átt að fylgja rússnesku vélinni út fyrir tyrkneska lofthelgi.

Mat NATO er hið sama og Tyrkja að rússneska vélin hafi flogið inn í lofthelgi Tyrklands.

Tyrkneskir embættismenn telja að rússnesku flugmennirnir tveir úr orrustuvélinni séu enn á lífi. Þeir kunni að vera í haldi sýrlenskra vígamanna. Fyrri fréttir hermdu að annar flugmannanna hefði látist.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …