Home / Fréttir / Tvö stærstu herskip Rússa á norðurleið í Noregshafi

Tvö stærstu herskip Rússa á norðurleið í Noregshafi

Admiral Kuznetsov
Admiral Kuznetsov

Tvö stærstu herskip Rússa, flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og orrustubeitiskipið Pyotr Velikíj, voru síðdegis mánudaginn 30. janúar á siglingu á Noregshafi, vestnorðvestur af Florø í Noregi segir á vefsíðunni BarentsObserver. Búist er við að þau leggist að bryggju í Svereomorsk á Kóla-skaga í Rússlandi miðvikudaginn 8. febrúar. Lýkur þá leiðangri þeirra til Sýrlands sem hófst í október 2016.

Á vefsíðunni segir að hvorugt skipanna hafi kveikt á sjálfvirkum skrásetningarkerfum Automatic Identification System (AIS) sínum. Það sé hins vegar unnt að fylgjast með ferðum skipanna á netinu í gegnum MarineTraffic.com með því að slá inn nafn dráttarbátsins Nikolaij Chiker sem er herskipunum til aðstoðar og fylgir þeim.

Í nágrenni rússnesku skipanna eru einnig tvær freigátur NATO-ríkja, norska herskipið F311 KNM Roald Amundsen og breska herskipið F83 HMS St. Albans. AIS NATO skipanna er virkt.

Haldi skipin sömu ferð verða þau undan strönd Noregs fram til fimmtudags 2. febrúar þegar þau sigla inn í Barentshaf.

Rússneska fréttastofan RIA Novosti segir að rússnesku skipin fari til hafnar í Severomorsk, helstu hafnar rússneska Norðurflotans og verði þar 8. eða 9. febrúar. Talið er að allar orrustuþotur og þyrlur um borð í Admiral Kuznetsov verði sendar til flugvallarins Severomorsk-3 á Kóla-skaga miðvikudaginn 8. febrúar.

Orrustuþoturnar um borð eru tveimur færri en sendar voru af stað í október. MiG-29 þota og Su-33 þota fórust í hernaðaraðgerðum á Miðjarðarhafi.

Eins og áður hefur birst hér á vefsíðunni kallaði Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, Admiral Kuznetsov „skip smánar“ þegar því var siglt um Ermarsund. Skipinu hefði verið beitt til að auka hörmungar Sýrlendinga.

Það stóð ekki á svari frá Moskvu. Igor Konasgenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, sagði við rússneska ríkismiðilinn Sputnik News: „Tilgangur yfirlýsinga af þessu tagi og sýndarmennska sem birtist í að elta skip okkar er að dreifa athygli breskra skattgreiðenda frá raunverulegu ástandi breska flotans,“

Um skipin frá NATO-ríkjunum sem elta rússnesku herskipin sagði Konashenkov: „ Rússneski herflotinn þarf ekki tilgangslausa fylgdarþjónustu – skipstjórar hans þekkja auðvitað siglingaleið sína.“

 

Heimild: BarentsObserver

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …