Home / Fréttir / Tvö flugmóðurskip á NATO-æfingu í norðurhöfum í mars

Tvö flugmóðurskip á NATO-æfingu í norðurhöfum í mars

Nýja breska flugmóðurskipið HmS Prince of Wales með fylgdarskipi.

Viðamesta heræfing NATO fyrir norðan heimskautsbaug síðan á níunda áratugnum, Cold Response, hefst í mars 2022 með þátttöku 35.000 hermanna frá 28 þjóðum. Æfðar verða varnir Norður-Noregs og taka tvær flotadeildir flugmóðurskipa þátt í æfingunni, segir í frétt norsku vefsíðunnar Barents Observer fimmtudaginn 13. janúar.

Breski flotinn tilkynnti 11. janúar að nýjasta flugmóðurskip hans, HMS Prince of Wales, yrði sent til æfinganna í norðurhöfum undan strönd Noregs.

Næstu 12 mánuði verður HMS Prince of Wales í forystu fyrir viðbragðsflota NATO sem ætlað er að takast á við stórverkefni hvar sem er í heiminum.

Flugmóðurskipið er annað skipið af sömu gerð og HMS Queen Elizabeth. Um borð er unnt að hafa 24 til 36 F-35 orrustuþotur og 14 þyrlur.

Cold Response 2022 (CR22) hefst í síðari hluta mars og lýkur í apríl.

Vegna spennunnar við Úkraínu var fallið frá að senda bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman til Persaflóa og hefur það þess í stað verið með flotadeild sinni á austurhluta Miðjarðarhafs. Eitt af fylgdarskipum USS Harry S. Truman er norska freigátan Fridtjof Nansen.

Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra Noregs, sagði í viðtali við norska blaðið VG nú í vikunni að bandaríska flugmóðurskipið og norska freigátan myndu í febrúar halda út á Norður-Atlantshaf og taka þátt í æfingunni CR22.

Þegar NATO efndi til æfingarinnar Trident Juncture árið 2018 sigldi USS Harry S. Truman norður fyrir heimskautsbaug í Noregshafi. Var það í fyrsta sinn frá hruni Sovétríkjanna sem bandarískt flugmóðurskip fór á þessar slóðir. Skipið hélt sig nærri Lófóten.

USS Harry S. Truman er af Nimitz-gerð og rúmar allt að 90 orrustuþotum og þyrlum. Skipið er knúið af tveimur kjarnakljúfum.

Í upplýsingum frá norska hernum segir að í CR22 taki þátt: 14.000 hermenn á landi, 13.000 á sjó og 8.000 í flugher og stjórnstöðvum á landi.

Meginþungi æfingarinnar verður á Ofoten-svæðinu. Evenes-flugvöllur er á þessu svæði en þar er heimavöllur nýju P8 Poseidon eftirlits- og kafbátaleitarvéla Norðmanna auk þess eru þar jafnan tvær F-35 þotur í viðbragðsstöðu, nyrstu vélarnar í Quick Reaction Alert (QRA) kerfi NATO. Þær eru sendar á loft til móts við rússneskar hervélar sem nálgast norska lofthelgi. Ofoten gegnir lykilhlutverki þegar litið er samstarfs NATO-þjóða við Svía og Finna um varnir í norðri.

Frá Ofoten eru um 600 km til Kólaskagans í austri þar sem kjarnorkukafbátar rússneska Norðurflotans eiga heimahafnir.

Skoða einnig

Norski herinn fylgist náið með spennunni við Úkraínu

Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska heraflans, sagði við fréttastofuna NTB föstudaginn 22. janúar að hann teldi …