Home / Fréttir / Tvö flugmóðurskip á NATO-æfingu í norðurhöfum í mars

Tvö flugmóðurskip á NATO-æfingu í norðurhöfum í mars

Nýja breska flugmóðurskipið HmS Prince of Wales með fylgdarskipi.

Viðamesta heræfing NATO fyrir norðan heimskautsbaug síðan á níunda áratugnum, Cold Response, hefst í mars 2022 með þátttöku 35.000 hermanna frá 28 þjóðum. Æfðar verða varnir Norður-Noregs og taka tvær flotadeildir flugmóðurskipa þátt í æfingunni, segir í frétt norsku vefsíðunnar Barents Observer fimmtudaginn 13. janúar.

Breski flotinn tilkynnti 11. janúar að nýjasta flugmóðurskip hans, HMS Prince of Wales, yrði sent til æfinganna í norðurhöfum undan strönd Noregs.

Næstu 12 mánuði verður HMS Prince of Wales í forystu fyrir viðbragðsflota NATO sem ætlað er að takast á við stórverkefni hvar sem er í heiminum.

Flugmóðurskipið er annað skipið af sömu gerð og HMS Queen Elizabeth. Um borð er unnt að hafa 24 til 36 F-35 orrustuþotur og 14 þyrlur.

Cold Response 2022 (CR22) hefst í síðari hluta mars og lýkur í apríl.

Vegna spennunnar við Úkraínu var fallið frá að senda bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman til Persaflóa og hefur það þess í stað verið með flotadeild sinni á austurhluta Miðjarðarhafs. Eitt af fylgdarskipum USS Harry S. Truman er norska freigátan Fridtjof Nansen.

Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra Noregs, sagði í viðtali við norska blaðið VG nú í vikunni að bandaríska flugmóðurskipið og norska freigátan myndu í febrúar halda út á Norður-Atlantshaf og taka þátt í æfingunni CR22.

Þegar NATO efndi til æfingarinnar Trident Juncture árið 2018 sigldi USS Harry S. Truman norður fyrir heimskautsbaug í Noregshafi. Var það í fyrsta sinn frá hruni Sovétríkjanna sem bandarískt flugmóðurskip fór á þessar slóðir. Skipið hélt sig nærri Lófóten.

USS Harry S. Truman er af Nimitz-gerð og rúmar allt að 90 orrustuþotum og þyrlum. Skipið er knúið af tveimur kjarnakljúfum.

Í upplýsingum frá norska hernum segir að í CR22 taki þátt: 14.000 hermenn á landi, 13.000 á sjó og 8.000 í flugher og stjórnstöðvum á landi.

Meginþungi æfingarinnar verður á Ofoten-svæðinu. Evenes-flugvöllur er á þessu svæði en þar er heimavöllur nýju P8 Poseidon eftirlits- og kafbátaleitarvéla Norðmanna auk þess eru þar jafnan tvær F-35 þotur í viðbragðsstöðu, nyrstu vélarnar í Quick Reaction Alert (QRA) kerfi NATO. Þær eru sendar á loft til móts við rússneskar hervélar sem nálgast norska lofthelgi. Ofoten gegnir lykilhlutverki þegar litið er samstarfs NATO-þjóða við Svía og Finna um varnir í norðri.

Frá Ofoten eru um 600 km til Kólaskagans í austri þar sem kjarnorkukafbátar rússneska Norðurflotans eiga heimahafnir.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …