
Stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands senda flugmóðurskip til Suður-Kínahafs til að sýna Kínverjum að þeir fari þar ekki með yfirráð og til að mótmæla ólögmætum kínverskum tilraunum til að sölsa hafið undir sig. Þar sem áður voru stakar eyjar í klasa sem kallast Spratly hafa Kínverjar gert herstöð með uppfyllingum.
Um þessar mundir vex spennan næstum dag frá degi milli Bandaríkjamanna og Kínverja á Suður-Kínahafi. Bandaríski flotinn heldur nú úti tveimur flugmóðurskipum með flota fylgdarskipa á hafsvæðinu en Kínverjar hervæðast áfram á manngerðum eyjum sínum þar.
Bretar hafa tilkynnt að þeir ætli að senda glænýtt flugmóðurskip sitt, Queen Elizabeth, til Suðaustur-Asíu sem svar við harðri afstöðu Kínastjórnar til borgríkisins Hong Kong sem Bretar stjórnuðu til 1997.
Breska blaðið The Times segir að innan bresku stjórnarinnar ræði menn nú hvort annað af tveimur flugmóðurskipum Breta eigi að hafa fasta viðveru á þessum slóðum.
Fyrir nokkrum dögum lét Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hörð orð falla um framgöngu Kínverja á Suður-Kínahafi og að Bandaríkjastjórn mundi ekki líða hana á svæði sem er siglingaæð um þriðjungs allra skipa heims.
Kínverjar eiga í stöðugum útistöðum við nágrannaþjóðir sínar um tilkall til Suður-Kínahafs, þetta eru stjórnir Filippseyja, Malasíu og Víetnams. Hver þjóð telur að virða beri yfirráðarétt sinn á hluta hafsins og eignarhald á olíu- og gaslindum sem finnast þar á hafsbotni.
Helst er tekist á um eyjaklasana Paracel og Spratly. Alþjóðlegi gerðardómstóllinn í Haag komst árið 2106 að niðurstöðu Filippseyingum í hag en Kínverjar hafa niðurstöðuna að engu. Þess í stað halda þeir áfram að reisa herstöðvar, flugbrautir, skotpalla fyrir flugskeyti og ratsjár á óbyggðum eyjum. Í Paracel-klasanum eru 130 smáeyjar og klettar.

Bandaríkjastjórn segist hafa rétt til frjálsra siglinga um svæðið með vísan til alþjóðareglna um siglingafrelsi. Kínverjar segja hins vegar að með skipaferðum um svæðið sé níðst á fullveldi þeirra. Hvert einstakt atvik á þessum slóðum magnar spennu milli ráðamanna í Peking og Washington.
Kínverjar svara Mike Pompeo fullum hálsi og saka Bandaríkjastjórn um að grafa undir svæðisbundnum stöðugleika í allri Suðaustur-Asíu fyrir utan að skipta sér af kínverskum innanríkismálum.
Frá Peking berast nú boð með röksemdum á borð við þær að Suður-Kínahaf hafi verið í 2.500 ár á kínversku áhrifasvæði. Af gervitunglamyndum má ráða að fyrst fyrir nokkrum árum tóku Kínverjar að helga sér land þarna fyrir herafla sinn.
Fyrir skömmu var gerð stjórnsýslubreyting innan Kína. Í henni felst að öll stjórnsýsla vegna eyjanna á Suður-Kínahafi er á einni hendi hjá yfirvaldi með aðsetur á Hainan-eyju. Þessi breyting staðfestir endanlega að Kínastjórn telur sig fara með allt vald á eyjunum.
Heimild: Jyllands-Posten
.