Home / Fréttir / Tvíhliða flotaæfing Bandaríkjamanna og Breta á Noregshafi

Tvíhliða flotaæfing Bandaríkjamanna og Breta á Noregshafi

Myndin er tekin frá bandaríska tundurspillinum USS Donald Cook og sýnir  USS Porter við hliðina á  bandarískta birgðaskipinu USNS Supply
Myndin er tekin frá bandaríska tundurspillinum USS Donald Cook og sýnir USS Porter við hliðina á bandarískta birgðaskipinu USNS Supply.

Herskip úr 6. flota Bandaríkjanna, Miðjarðarhafsflotanum, og breska flotanum efndu til tvíhliða kafbátaleitaræfingar fyrir norðan heimskautsbaug undan strönd Noregs föstudaginn 1. maí segir í frétt á norsku vefsíðunni BarentsObserver. Þar segir einnig að undanfarin tvö ár hafi rússneski flotinn stofnað til æfinga sem kenndar eru við brjóstvörn (e. bastion defense) fyrir rússneska kafbátaflotann frá Kólaskaga.

Við brjóstvörnina hafa rússneskir kafbátar, herskip og flugvélar sótt út á Noregshaf og í áttina að Íslandi eða GIUK-hliðinu, hafsvæðunum frá Grænlandi um Ísland til Skotlands. Með vörninni vilja Rússar verja langdrægar kjarnaflaugar um borð í kafbátum sínum í Barentshafi sem þeir telja þungamiðjuna í fælingarmætti sínum.

Bandaríski flotinn sagði í tilkynningu vegna æfinganna að hann ynni með evrópskum samstarfsríkjum til að tryggja að norðurskautssvæðið sé opið til siglinga og yfirflugs.

Fjögur herskip, P8-A Poseidon flotaeftirlitsvél og einn kjarnorkuknúinn  kafbátur tóku saman þátt í æfingunni 1. maí.

Bandaríski flotinn segir aðeins að æfingin hafi verið á Noregshafi og svaraði fyrirspurn frá BarentsObserver um nánari staðsetningu á þann veg að hún yrði ekki gefin.

Norski herinn átti ekki aðild að æfingunni sem fór fram á alþjóðlegu hafsvæði.

Um 1.200 sjóliðar tóku þátt í æfingunni frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Þar voru tveir bandarískir tundurspillar búnir stýriflaugum: USS Donald Cook og  USS Porter og stórt bandarískt birgðaskip, USNS Supply. Bækistöð bandarísku skipanna er í Rota á Spáni.  Breski flotinn sendi freigátuna HMS Kent til þátttöku í æfingunni.

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …