Home / Fréttir / Tveimur rússneskum ísbrjótum fagnað

Tveimur rússneskum ísbrjótum fagnað

Ísbrjóturinn Ural á reynslusiglingu.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti fagnaði tveimur nýjum kjarnorkuknúnum ísbrjótum í fjarávarpi sem hann flutti við athöfn í St. Pétursborg þriðjudaginn 22. nóvember.

Pútin sagði að annar ísbrjóturinn, Ural, yrði tekinn í notkun snemma í desember 2022, hinn, Jakutia, bættist við flotann á árinu 2024. Honum var hleypt af stokkunum þegar Pútin flutti ávarp sitt.

Pútin sagði að skip sem gætu tekist á við ís á þann hátt sem þessi skip gætu gegndu gífurlega miklu strategísku hlutverki fyrir Rússa. Þau væru nauðsynleg til að kanna Norður-Íshafið og tryggja skipum örugga leið um það enda yrði að auka siglingar eftir Norðurleiðinni.

Forsetinn sagði að opin siglingaleið á þessum slóðum gerði Rússum kleift að stunda útflutning þaðan og skapa örugg viðskiptatengsl meðal annars við Suðaustur-Asíu.

Ural og Jakutia eru skip í flota sambærilegra ísbrjóta sem eiga að treysta yfrráð Rússa á Norðurleiðinni og áhrif þeirra á Norður-Íshafi. Skipin eru hönnuð á þann veg að þau þoli verstu veður og geti brotið allt að þriggja metra þykkan ís.

Ural er þriðja skipið af þessari gerð fyrir eru skipin Arktika og Sibir. Stefnt er að sjö slík systurskip verði í rússneska ísbrjótaflotanum.

Í ár eru Rússar eina þjóð heims sem á flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta segir rússneska ríkisskipafélagið Rosatomflot sem annast rekstur skipanna. Kanadamenn standa næstir Rússum sé litið til fjölda ísbrjóta. Í fyrra tilkynnti Kanadastjórn að hún ætlaði að láta smíða tvo nýja ísbrjóta sem yrðu öflugri en forverar þeirra.

Rússar hafa sett sér það mark að halda úti að minnsta kosti 13 ísbrjótum á Norðurleiðinni árið 2030, þar af verði níu kjarnorkuknúnir. Reiknað er með að þá verði 150 milljón tonna flutt eftir leiðinni, fimm sinnum meira magn en 30 milljón tonn árið 2022.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …