Home / Fréttir / Tvær sviðsmyndir um örlög Noregs í hernaðarátökum við Rússa

Tvær sviðsmyndir um örlög Noregs í hernaðarátökum við Rússa

Norskir hermenn á æfingu.
Norskir hermenn á æfingu.

Norðmenn ræða nú varnaráætlun fyrir land sitt árin 2017 til 2020. Af því tilefni ritar Karsten Friis, rannsóknastjóri á sviði öryggis- og varnarmála hjá NUPI, Norsku utanríkismálastofnuninni, grein í norska blaðið Klassekampen þriðjudaginn 30. ágúst. Þar leitast hann við að svara spurningunni: Hvers konar árás á Noreg er líklegust eða alvarlegust og hvaða varnarmálastefna er best til að koma í veg fyrir hana eða svara henni?

Hann segir að sé þessari spurningu ekki svarað sé tilgangslaust að ræða skipulag herstöðva, vopnakerfi og hlutverk hersins.

Enginn deili lengur um að vegna dramatískra breytinga í nágrenni Noregs undanfarin tvö ár þurfi að nýju að huga að vörnum norsks fullveldis. Ekki sé hins vegar nú á tímum unnt að snúa til sömu varnaráætlana fyrir Noreg og áður voru taldar duga til varnar landi og þjóð. Þær séu bæði of dýrar og gamaldags og svari ekki ógnum samtímans.

Friis segir að sérfræðingar í varnarmálum nefni oft tvær sviðsmyndir: Önnur sé allsherjarstríð milli Rússa og NATO sem hefjist á öðrum væng en teygi sig síðan til Noregs, svonefnd lárétt stigmögnun.

Þá óttist menn að Rússar reyni að verja strategískar herstöðvar sínar á Kóla-skaga gegn árás frá NATO. Þetta nefni menn virkisvörnina en í henni felist einnig lokun hafsvæðanna milli Grænlands, Íslands og Bretlands (GIUK-hliðsins) til að verja Kóla.

Við þessar aðstæður yrði Noregur aðþrengdur á bak við varnarlínu Rússa og þess mætti vænta að þeir reyndu að uppræta sóknarmátt norska hersins gegn Kóla og að koma í veg fyrir að flytja mætti herafla bandamanna til Noregs.

Í hinni sviðsmyndinni sé gert ráð fyrir tvíhliða átökum milli Norðmanna og Rússa og lýsi menn þeim oft með þeim orðum að þau séu „of lítil fyrir NATO og of stór fyrir Noreg“.

Í slíkum átökum kunni að myndast grá svæði milli borgaralegra og hernaðarlega yfirvalda eða þar sem valdheimildir séu takmarkaðar eins og til dæmis gegn strandgæslunni. Svalbarði sé oft nefndur í þessu sambandi eða blendingsaðgerðir gegn Noregi sjálfum.

Þá segir Friis:

„Í hópi herfræðinga hafa menn rætt þessar tvær sviðsmyndir frá lokum kalda stríðsins. Það er hætta á að við setjum enn þann dag í dag upp gleraugu kalda stríðsins og gleymum mikilvægasta muninum á mill rússneska hersins og þess sovéska. Hér má nefna þrjú atriði:

  1. Með langdrægum fjarstýrðum eldflaugum má nú ráðast á allan Noreg frá skipum langt á hafi úti.
  2. Rússar höfðu yfirburði gagnvart NATOí hefðbundnum vopnabúnaði en eiga nú mjög undir högg að sækja í því efni og ráða yfir minna varaliði.
  3. Rússar ráða yfir fleirum léttvopnuðum og hreyfanlegum hersveitum sem flytja má hratt úr einum stað í annan.

Hvað þýðir þetta fyrir Norðmenn?

Af fyrstu tveimur liðunum má draga þá ályktun að algjörlega óraunhæft sé að Noregur verði hernuminn eins og árið 1940.

Rússar þurfa hvorki né geta hernumið stór landsvæði í Noregi.

Við þurfum því varla að óttast að vígdrekum verði ekið í gegnum Finnmörk og Troms. Þeir munu varla flytja þunga bryndreka landhersins á brott frá Kóla, þeirra er þörf þar sem þeir eru. Þriðji liðurinn bendir til þess að hreyfanlegum herafla verði að öllum líkindum beitt í báðum tilvikum.

Hugsanleg árás á Noreg verður sennilega gerð með fallhlífa- eða landgönguliði.

Unnt er að ímynda sér að þeir muni reyna að hertaka strategíska staði eins og mikilvægar herstöðvar, ríkisstjórnina eða strategísk mannvirki til að lama okkur. Mikið af því má gera með skotflaugum (í fyrstu sviðsmynd), eitthvað krefst hugsanlega landhers en markmiðið verður að eyðileggja og loka af staði en ekki að hernema.

Auðvitað er ekki unnt að útiloka að þeir hafi áhuga á leggja undir sig einstaka staði í Noregi til að koma upp birgðastöðvum, aðgerðastöðvum og til að ráða yfir strategískum stöðum. Þetta krefst þess að Rússar beiti þyngri vopnum og stundi birgðaflutninga. Þeir þurfa hins vegar varla að brjóta sér leið í gegnum Innri-Troms ef þeir geta komist sjóleiðina?

Vafalaust er um marga ókunna þætti í þessari atvikalýsingu að ræða en meginsvar norska hersins felst í hreyfanleika og aðlögunarhæfni – auk þess að hafa úthald til að geta barist um nokkurt skeið.

Komi til þess að Rússar ætli einhvern tíma að hernema lítinn hluta Noregs verðum við að hafa getu til að berjast við þá og einnig til að ógna þeim eftir að þeir hafa náð fótfestu. Þá verður að vera unnt að flytja allar herdeildir með hraði um land allt, fjölga verður stöðvum til stuðnings hernum, huga að birgðaflutningum og hæfni til samþættingar svo að eitthvað sé nefnt. Í þessu ljósi verður að skoða herinn og heimavarnarliðið.

Sé hreyfanleiki lykilorðið er þungvopnað véla-stórfylki þá rétta svarið? Er heimavarnarliðið of lítið og illa búið?

Vegna þess hver þróunin er vakna ýmsar aðrar spurningar um varnarkerfið í heild (ekki aðeins landherinn), um skipulag, stefnu og heildarrammann. Einnig skiptir máli að ræða tengslin milli hernaðarlegra og borgaralegra aðila. Ber að endurvekja hugmyndina um alvarnir (totalforsvar)?“

Friis leggur áherslu á skapa verði norska hernum þann ramma að hann sé fær um að takast á við hernaðarlegar ógnir komandi ára. Sé það ekki gert kunni Norðmenn að festa fé í hergögnum sem ekki sé þörf.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …