Home / Fréttir / Tusk beinskeyttur í garð Trumps

Tusk beinskeyttur í garð Trumps

Donald Tusk, Jens Stoltenberg og Jean-Ckaude Juncker.
Donald Tusk, Jens Stoltenberg og Jean-Ckaude Juncker.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, var ómyrkur í máli þriðjudaginn 10. júlí þegar hann sneri sér til Bandaríkjamanna og sagði: „Kæru Bandríkjamenn, metið bandamenn ykkar. Þið eigið hvort sem er ekki svo marga.“ Miðvikudaginn 11. júlí situr Donald Trump Bandaríkjaforseti fund ríkisoddvita NATO-ríkjanna í Brussel. Katrín Jakobsadóttir forsætisráðherra tekur þátt í fundinum.

Þessi orð féllu í ræðu Tusks eftir fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, þriðjudaginn 10. júlí þar sem rædd voru sameiginleg málefni ESB og NATO. Forseti leiðtogaráðsins sagði einnig:

„Kæri Trump forseti, Bandaríkjamenn eiga ekki og eignast ekki betri bandamenn en í Evrópu. Um þessar mundir verja Evrópumenn mörgum sinnum meira fé til varnarmála en Rússar og eins miklu meira en Kínverjar. Og, hr. forseti, ég held þú þurfir ekki að efast um að hér er um fjárfestingu í sameiginlegum vörnum og öryggi með Bandaríkjamönnum að ræða, ekki er unnt að segja það með vissu um útgjöld Rússa og Kínverja.“

Tusk gagnrýndi Trump fyrir að líta fram hjá því hve fljótt Evrópuþjóðir brugðust við 9/11 árásinni og sagði: „Evrópskar hersveitir hafa barist við hlið bandarískra hermanna í Afganistan; 870 hugrökk karlar og konur hafa fórnað lífi sínu, þar á meðal 40 hermenn frá heimalandi mínu, Póllandi.

Kæri, hr. forseti, vinsamlega mundu eftir þessu á morgun þegar við hittumst á NATO-fundinum, en umfram allt annað þegar þú hittir [Vladimir] Pútín [Rússlands]forseta í Helsinki. Það er alltaf þess virði að vita hver er strategískur vinur manns og hver skapar manni strategískan vanda.“

Ræða Tusks ber með sér þann anda sem skapaðist meðal bandamanna Bandaríkjanna á fundi G7-leiðtoganna í Kanada fyrir einum mánuði þegar Trump talaði niður til þeirra. Trump hittir Pútín í Helsinki mánudaginn 16. júlí að loknum NATO-fundinum og fjögurra daga dvöl, fyrst á Englandi og síðan í Skotlandi.

Tusk var forsætisráðherra Póllands áður enn hann var valinn forseti ESB-leiðtogaráðsins. Hann hefur jafnan stutt náið samstarf við Bandaríkjamenn.

Tusk gagnrýndi ESB-ríki einnig fyrir að verja ekki nógu miklu fé til varnarmála og tók þar með undir gamalkunnar kvartanir Bandaríkjastjórnar. Hvatti Tusk ESB-ríkin til að auka útgjöldin til hermála.

Tusk, Stoltenberg og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdatjórnar ESB, rituðu undir samning að loknum fundi sínum í Brussel þar sem nánari tengsl ESB og NATO eru boðuð.  Samningurinn snýst um aðgerðir gegn hryðjuverkum, gegn þeim sem smygla fólki og gegn netglæpum fyrir utan að árétta samstöðu og samstarf í varnarmálum. Unnið hefur verið að gerð hans í rúm tvö ár.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …