Home / Fréttir / Tugir tyrkneskra starfsmanna hjá NATO sakaðir um aðild að valdaráni

Tugir tyrkneskra starfsmanna hjá NATO sakaðir um aðild að valdaráni

36117275_303

Nokkrir tugir tyrkneskra herforingja sem störfuðu í höfuðstöðvum NATO í Brussel eða hjá Evrópuherstjórn bandalagsins, SHAPE, í Mons í Belgíu eru meðal þeirra rúmlega 125.000 manns sem Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sakar um að hafa gert árangurslausa valdaránstilraun gegn sér í júlí 2016. Erdogan kallar þá „hryðjuverkahermenn“.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) ræddi við nokkra þessara manna og birti frásögnina þriðjudaginn 6. desember. Þeir vilja ekki láta nafns síns getið.

Þeir vilja gjarnan vita hvort nokkur háttsettur maður ætlar að spyrja Melvut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrkja, hvað orðið hafi um þá, Hvort hann telji víst að bandalagið geti starfað áfram án þess að njóta starfskrafta nokkurra best sérþjálfuðu manna sinna.

Meirihluti tyrkneskra embættsmanna sem sagðir hermenn í þjónustu NATO í stöðvum í Þýskalandi hefur neitað að snúa aftur til Tyrklands þrátt fyrir fyrirmæli um að gera það. Þeir vilja pólitískt hæli í Þýskalandi og segjast stjórnvöld hafa málið til „nákvæmrar skoðunar“.

Flestir mannanna hafa hlotið menntun á Vesturlöndum og sumir þeirra hafa lokið doktorsnámi eða meistaranámi við bandaríska háskóla og stofnanir fyrir utan þátttöku sína í mörgum NATO-æfingum. Öllum þeirra ber saman um að þeir hafi ekki átt neina aðild að valdaránstilrauninni, þeir hafi tafarlaust fordæmt hana og haldið áfram störfum sem dyggir fulltrúar tyrknesku ríkisstjórnarinnar. Nöfn þeirra hafi hins vegar birst á einhverjum listanna 20 yfir grunaða menn sem dreift hefur verið til sendiráða Tyrklands um heim allan, venjulega síðdegis á föstudögum.

Á fylgiblöðum með þessum listum segja foringjarnir að sé að finna fyrirmæli til þeirra um að skila NATO-skilríkjum sínum og diplómata vegabréfum sínum. Þeir eigi aðeins rétt á persónuskilríkjum sem dugi þeim til að komast eina leið – til baka til Ankara. Flestum var skipað að gera þetta innan þriggja daga eftir að þeim bárust fyrirmælin eða jafnvel innan skemmi frests. Ekki hafa verið birtar ástæður heimköllunarinnar, aðeins nafnalistar og upplýsingar um brottrekstur.

Í fyrstu ætluðu mennirnir almennt að fara að þessum fyrirmælum en þegar fréttir bárust um að 17 félagar þeirra sem sneru til Tyrklands hefðu verið handteknir snerist flestum hugur.

Fjölskyldur sumra mannanna verða eftir í Brussel eða annars staðar og lenda í vandræðum þegar fyrirvinnan er tekin af launaskrá án fyrirvara og ekki er unnt að ná einu sinni símasambandi. Konum og börnum er ráðlagt að dveljast áfram utan Tyrklands, innan NATO hafa farið fram fjársafnanir fyrir þessar fjölskyldur.

Hjá NATO forðast ráðamenn að stofna til deilna við Tyrki vegna þess hve miklu varðar að land þeirra sé innan bandalagsins. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, er hvað eftir annað spurður um stöðu málsins. Hann svarar því einu að „áhyggjum“ vegna þess hafi verið hreyft við tyrknesk stjórnvöld.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …