
Tugir þúsunda manna komu saman til mótmæla í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, sunnudaginn 6. september þrátt fyrir viðvaranir um að yfirvöld mundu beita hörku. Rúmlega hundrað mótmælendur voru handteknir og lögregla lokaði götum og beitti þungum ökutækjum til að þeir kæmust inn á Sjálfstæðistorgið.
Mótmælendur báru rauð-hvítan fána Hvíta-Rússlands og hrópuðu slagorð gegn Alexander Lukasjenko forseta í skugga lögreglunnar og vígdreka hennar með háþrýstisprauturnar.
Sjálfstæði hvítrússneski miðillinn Tut.by telur að síðdegis 6. september hefðu að minnsta kosti 100.000 komið saman fyrir utan Sjálfstæðishöllina þar sem kom til átaka við lögregluna. Visna-baráttuhópurinn telur að 167 hafi verið handteknir í Minsk. Innanríkisráðuneytið staðfesti síðar að þeir hefðu „ekki verið færri en 100“.
Á myndskeiðum má sjá lögreglu lumbra á mótmælendum áður en farið var með þá í ómerkta bíla. Nick Connolly sem var á staðnum fyrir þýsku fréttastofuna DW sagði marga hafa verið tekna fasta undir lok mótmælanna. Hann telur að ofbeldi lögreglunnar hafi öfug áhrif. „Fólk hlær frekar að stjórnvöldum en óttast þau og þeim fjölgar sífellt sem mótmæla.“
Svetlana Tikhanovskaja, forystukona mótmælenda og mótframbjóða Lukasjenkos í kosningunum 9. ágúst, hvatti mótmælendur til að láta ekki deigan síga. Hún sendi myndskeið frá Litháen, þar sem hún leitaði hælis eftir kjördag: Munið, sameinuð erum við sterk! sagði hún.
Eitt helsta netþjónustufyrirtæki landsins, A1, varaði við að þjónustan kynni að minnka vegna þess að stjórnvöld hefðu sett skorður fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Tut.by sýndi myndskeið þar sem svo virðist sem lögregla beiti táragasi gegn mótmælendum. Sagt er að nokkur þúsund manns hafi mótmælt í Grodno við vesturlandamæri Hvíta-Rússlands. Svipuð mótmæli urðu í borgunum Brest, Mogilev, Gomel og Vitebsk.
Maria Kolesnikova, forystukona Samræmingarráðsins, sem mótmælendur stofnuðu í því skyni að knýja Lukasjenko til afsagnar sagði að mannhafið yrði ekki stöðvað „með hergögnum, háþrýstidælum, áróðri og handtökum“. ´
.