Home / Fréttir / Tugir þúsunda mótmæla enn á ný í Minsk

Tugir þúsunda mótmæla enn á ný í Minsk

 

Mótmæli í Minsk 30. ágúst 2020.
Mótmæli í Minsk 30. ágúst 2020.

Tugir þúsunda manna streymdu um götur Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, sunnudaginn 30. ágúst og áréttuðu kröfuna sem haldið hefur verið á loft í þrjár vikur um að Alexander Lukasjenko forseti segi af sér og boði til nýrra kosninga.

Lögreglumenn og hermenn frá innanríkisráðuneytinu höfðu tekið sér stöðu umhverfis bústað Lukasjenkos. Lögreglubílar loka öllum leiðum að henni.

Margir mótmælendur gengu að grindum lögreglunnar. Nokkrir þeirra báru líkkistu skreytta stóru skordýri. Aleksander Lukasjenko varð 66 ára 30. ágúst. Hrópuðu mótmælendur að því tilefni: Til hamingju með afmælið, rottan þín! Vladimir Pútin Rússlandsforseti hringdi hins vegar í hvítrússneska starfsbróður sinn og flutti honum heillaóskir. Stefnir Lukasjenko á að heimsækja Moskvu einhvern tíma „á næstu vikum“.

Öryggisverðir standa einnig umhverfis stríðsminnismerki þar sem mótmælendur hafa komið saman í fyrri aðgerðum. Þá er Októbertorgið lokað en það er vinsælt meðal mótmælenda.

Fyrir gönguna 30. ágúst frömdu konur klæddar þjóðbúningum gjörning gegn ríkisstjórninni við stjórnarráðshúsið. Þær lögðu grasker á jörðina sem er þjóðlegt tákn um að bónorði sé hafnað.

Hluti íþróttahreyfingar landsins hefur einnig snúist gegn Lukasjenko. Að minnsta kosti 363 keppendur – þar á meðal verðlaunahafar frá Ólympiuleikum – skrifuðu undir opið bréf þar sem kosningasvindlið við kjör Lukasjensenkos 9. ágúst 2020 er fordæmt. Þess er krafist að pólitískum föngum verði sleppt og gengið til kosninga að nýju.

Talið er að um 100.000 manns hafi verið á götum Minsk sunnudaginn 30. ágúst. Þá hefur verið dreift myndum frá mótmælum í borgunum Brest og Grodno.

Um helgina voru að minnsta kosti 17 blaðamenn sem segja fréttir frá Hvíta-Rússlandi sviptir skilríkjum sínum og geta þeir því ekki lengur stundað störf sín í landinu.

„Þetta er aðeins enn eitt merkið um að stjórnin er að þrotum komin siðferðilega,“ sagði Svetlana Tikhanovskaja sem bauð sig fram gegn Lukasjenko en leitaði síðan hælis í Litháen.

 

Heimild: Jyllands-Posten.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …