Home / Fréttir / Trump vill endurnýja bandaríska kjarnorkuheraflann

Trump vill endurnýja bandaríska kjarnorkuheraflann

Donald Trump forseti heilsar Paul D. Ryan þingforseta við komu sína í þingsalinn til að flytja stefnuræðuna 2018.
Donald Trump forseti heilsar Paul D. Ryan þingforseta við komu sína í þingsalinn til að flytja stefnuræðuna 2018.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi þriðjudaginn 30. janúar að Bandaríkjamenn stæðu frammi fyrir óvinveittum ríkisstjórnum, hryðjuverkahópum og keppinautum eins og Kínverjum og Rússum sem ögruðu hagsmunum þeirra, efnahag og gildum. Bandaríkjamenn vissu að veikleikamerki væri vísasti vegurinn til að þessar hættur leiddu til átaka, best væri að kveða þær niður með yfirburða afli.

Með vísan til þessa fór forsetinn þess á leit að Bandaríkjaþing hætti að láta herafla Bandaríkjanna sæta niðurskurði.

Hann sagði nauðsynlegt að nútímavæða og endurreisa kjarnorkuherafla Bandaríkjanna í von um að þurfa aldrei að beita honum en til að tryggja að hann sé svo mikill og voldugur að hann haldi hvaða andstæðingi sem er í skefjum með fælingarmætti sínum. Sú töfrastund kunni að koma einhvern tíma í framtíðinni að ríki heims ákveði sameiginlega að uppræta kjarnorkuvopn. Því miður hafi það ekki gerst enn þann dag í dag.

Trump sagðist í fyrra hafa lofað að Bandaríkjamenn mundu vinna með bandamönnum sínum að afmá ISIS (Ríki íslams) af yfirborði jarðar. Nú einu ári síðar geti hann stoltur tilkynnt að samstarfsþjóðunum gegn ISIS hafi tekist næstum 100% að endurheimta landsvæðið sem þessir morðingjar hefðu á sínum tíma haft á valdi sínu í Írak og Sýrlandi. Verkinu væri þó ekki lokið og baráttuni yrði haldið áfram þar til fullur sigur hefði unnist á ISIS.

Hann sagði hryðjuverkamenn sem sprengdu upp almenn sjúkrahús illmenni. Þeir væru drepnir. Stundum kynni að vera nauðsynlegt að svipta þá frelsi og yfirheyra þá. Eitt yrði að hafa á hreinu: Hryðjuverkamenn væru ekki aðeins glæpamenn. Þeir væru ólöglegir óvina bardagamenn. Tækist að handataka þá erlendis yrði að meðhöndla sem hryðjuverkamenn, það væru þeir.

Hann sagði það hafa verið heimskulegt á sínum tíma að láta hundruð hættulegra hryðjuverkamanna lausa. Þeir hefðu einfaldlega snúið aftur á vígvöllinn – þar á meðal leiðtogi ISIS, al-Baghdadi. Trump sagðist þennan sama dag hafa efnt annað loforð þegar hann ritaði undir fyrirmæli til James Mattis varnarmálaráðherra um að endurskoða stefnuna varðandi fangelsanir hersins fyrir utan að halda rekstri fangelsisins við Guantánamo Bay áfram.

Trump minnti á að hann hefði nýlega ákveðið að framkvæma það sem öldungadeild Bandaríkjaþings hefði samhljóða hvatt til aðeins nokkrum mánuðum áður: að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Skömmu síðar hefðu nokkrir tugir ríkja greitt atkvæði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna gegn fullveldisrétti Bandaríkjamanna til að standa að þessari viðurkenningu. Af örlæti sínu létu bandarískir skattgreiðendur ár hvert milljarða dollara af hendi rakna til aðstoðar þessum sömu löndum.

Með vísan til þessa sagðist Trump fara þess á leit við þingið að það samþykkti lög sem tryggðu að aðstoðarfé Bandaríkjamanna þjónaði ávallt bandarískum hagsmunum og rynni aðeins til vina Bandaríkjanna.

„Samhliða því sem styrkjum vináttu við ríki um heim allan tökum við einnig af skarið um hverjir eru andstæðingar okkar,“ sagði Bandaríkjaforseti í stefnuræðu sinni.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …