Home / Fréttir / Trump viðurkennir að líklega hafi Rússar stundað tölvuárásir vegna forsetakosninganna

Trump viðurkennir að líklega hafi Rússar stundað tölvuárásir vegna forsetakosninganna

 

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi eftir fund með forstjórum öryggis- og leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna föstudaginn 6. janúar að Rússar hefðu líklega staðið að tölvuárásum í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar síðsumars 2016 án þess að hafa ráðskast með úrslitn.

Niðurstaða forstjóra stofnananna er að Vladimír Pútín Rússlandaforseti hafi „gefið fyrirmæli um að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016“ með því að „gera lítið úr“ Hillary Clinton og „láta í ljós ótvíræða velþóknun á Trump verðandi forseta“.

Þessi niðurataða birtist í skýrslu sem unnin var að fyrirmælum Baracks Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseta, og birt var föstudaginn 6. janúar. Fyrr um daginn höfðu forstjórar öryggis- og leyniþjónustustofnana setið fund með Donald Trump í New York þar sem þeir og samstarfsmenn þeirra gerðu honum grein fyrir niðurstöðum sínum.

Trump svaraði með því að viðurkenna að Rússar hefðu leitast við að gera tölvuárásir á stjórn Demókrataflokksins en Trump sagði það eitt um þá niðurstöðu að Pútín hefði reynt að aðstoða framboð sitt að tölvuárásirnar hefðu ekki haft áhrif á úrslit kosninganna,

Í The New York Times segir að í skýrslunni sé að finna undarlega nákvæman áfellisdóm yfir tilraunum Rússa til að grafa undan bandaríska kosningakerfinu og þó einkum Hillary Clinton. Það er mat skýrsluhöfunda að Pútin hafi „viljað stuðla að kjöri verðandi forseta Trumps með því að gera lítið úr [Hillary] Clinton þegar það var unnt og bregða opinberlega upp óvinsamlegri mynd af henni en honum“.

Í opinberum hluta skýrslunnar er einnig fullyrt „af verulegu öryggi“ að helsta njósnastofnun rússneska hersins, GRU, hafi búið til „persónuna“ Guccifer 2.0 og vefsíðuna  DCLeaks.com, til að birta tölvubréf stjórnar Demókrataflokksins og formanns kosningastjórnar Hillary Clinton, Johns D. Podesta.

Rússar beittu sér fyrir dreifingu misvísandi frétta eða hreinna gervifrétta í netheimum auk þess að senda svonefnd „tröll“ þangað til að valda usla.

Þeir sem sátu fundinn með Trump voru James R. Clapper Jr., forstjóri æðstu njósnastofnunar landsins, John O. Brennan, forstjóri CIA, Michael S. Rogers, forstjóri Þjóðaröryggisstofnunarinnar, og James B. Comey, forstjóri alríkislögreglunnar, FBI.

 

.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …