Home / Fréttir / Trump veldur undrun og uppnámi með yfirlýsingum um NATO, ESB og Merkel

Trump veldur undrun og uppnámi með yfirlýsingum um NATO, ESB og Merkel

 

Donald Trump með viðmælendum frá Bild og The Times.
Donald Trump með viðmælendum frá Bild og The Times.

Donald Trump, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta föstudaginn 20. janúar, sagðí viðtali við þýska blaðið Bild og breska blaðið The Times sem birt var sunnudaginn 15. janúar að NATO væri sér „mjög mikils virði“ en bandalagið væri hins vegar „úrelt“ vegna þess að það hefði komið til sögunnar „fyrir mörgum, mörgum árum“ .

Viðtalið sem tekið var af breska íhaldsþingmanninum og ESB-andstæðingnum Michael Gove og Kai Diekmann, fyrrverandi útgefanda og ritstjóra Bild, hefur vakið undrun og hörð viðbrögð í Evrópu og Bandaríkjunum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagðist „bera traust“ til komandi stjórnar Bandaríkjanna undir forystu Trumps.

Trump kvartaði eins og áður undan því að Bandaríkjamenn stæðu undir of miklum kostnaði af NATO, 70%, en aðeins fimm af 28 aðildarríkjum greiddu það sem þeim bæri, 2% af vergri landsframleiðslu.

Forsetinn verðandi sagðist dást að Angelu Merkel Þýskalandskanslara hún væri „frábær leiðtogi“ en hefði gert „hroðaleg mistök“ með því að opna Þýskaland fyrir flótta- og farandfólki árið 2015. Afleiðingar þess birtust meðal annars í hryðjuverkinu í Berlín fyrir jól þar sem 12 týndu lífi.

Í samtalinu sagði Trump að hann mundi hitta Theresu May, forsætisráðherra Breta, eins fljótt og verða mætti eftir að hann tæki við embætti. Hann vildi auðvelda Bretum að ganga úr ESB og hraða gerð viðskiptasamnings við þá.

Hann taldi líklegt að fleiri þjóðir sigldu í kjölfar Breta vegna þess að þær vildu halda í sérkenni sín. Það yrði sífellt erfiðara vegna stefnu ESB í útlendingamálum og straums flóttamanna til álfunnar. Þessi mikli straumur hefði „fyllt mælinn“ hjá Bretum. Þess vegna hefðu þeir valið úrsögn úr ESB sem væri ekki annað en „tæki Þjóðverja“.

Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins, sagði í útvarpsviðtali mánudaginn 16. janúar að viðhorf Trumps bæri með sér „hættulegt nýnæmi fyrir Evrópu og heiminn“. Röttgen sagði:

„Ef til vill má orða þetta á þann veg að vestrið sé ekki til í huga hans. Honum er sama um sundrungu innan Evrópusambandsins og hvort því er ögrað eða hvort NATO sé til eða ekki. Það er úrelt í hans huga.“

Röttgen sagði við útvarpsstöðina Deutschlandfunk að honum þætti Trump ekki enn hafa mótað neina „raunverulega“ stefnu og hann væri eins og jafnan áður mjög nærsýnn vegna hagsmuna Bandaríkjanna. Ekki væri enn unnt að tala um bandaríska utanríksstefnu undir forystu Trumps.

„Ef til vill fær varaforsetinn nýtt hlutverk, verður einskonar forsætisráðherra. Ef til vill verður þetta til þess að nýju ráðherrarnir ráði. Þriðji kosturinn er að ráðherrarnir sitji ekki lengi í embættum sínum,“ sagði Röttgen. Vísa þessi ummæli hans til þess að verðandi ráðherrar í stjórn Trumps hafa lýst allt öðrum skoðunum í öryggismálum en hann.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, var mánudaginn 16. janúar í Brussel og hitti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins. Steinmeier sagði að yfirlýsing Trumps um að NATO væri úrelt hefði „vakið óhug“.

Steinmeier, sem líklega verður næsti forseti Þýskalands, sagði að yfirlýsingar Trumps um ESB og NATO hefðu vakið „undrun og uppnám“ og ekki aðeins í Brussel.

Trump nefndi einnig að semja mætti við Rússa um samdrátt kjarnorkuherafla gegn því að Vesturlönd féllu frá efnahagsþvingununum sem gripið var til gegn Rússum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga vorið 2014.

Rússneska fréttastofan RIA Novosti hafði eftir Konstantin Kosatsjev, formanni utanríkismálanefndar efri deildar rússneska þingsins, að það væri ekki sjálfstætt markmið Rússa að losna undan vestrænum þvingunum gegn því að draga úr eigin öryggi. Þvinganirnar væru „heimskuleg arfleifð“ Obama og stjórnar hans.

.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …