Home / Fréttir / Trump undirrót alþjóðlegrar óvissu

Trump undirrót alþjóðlegrar óvissu

Wolfgang Ischinger.
Wolfgang Ischinger.

Það ríkir krísa í heiminum – og Bandaríkjastjórn gerir aðeins illt verra. Þessi dómur er felldur í ársskýrslu um stöðu alþjóðamála sem kennd er við alþjóðlegu öryggissráðstefnuna í München. Hún kemur saman í 55. skipti 15. til 17. febrúar. Að þessu sinni verða þar til dæmis Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Wolfgang Ischinger, forstjóri ráðstefnunnar og fyrrv. sendiherra Þýskalands í Washington, segir í inngangi skýrslunnar að nú sé að hefjast nýtt skeið sem muni einkennast af valdabaráttu milli Bandaríkjamanna, Kínverja og Rússa auk þess sem það skorti forystu á því sviði alþjóðamála sem kennt sé við „frjálslynda alþjóðlega skipan“.

Auðvelt sé að benda á eina helstu undirrót óstöðugleikans. Bandaríkjastjórn undir forystu Donalds Trumps sýni lítinn áhuga á að halda sér við alþjóðasamninga og forsetinn noti oft Twitter til að efast um gildi alþjóðasamtaka á borð við NATO og Sameinuðu þjóðirnar. Hitt sé þó jafnvel verra: Undir forystu Trumps virðist Bandaríkjastjórn fús til að afsala sér hlutverki sínu sem forysturíki meðal þeirra þjóða sem eru kenndar við „frjálsa heiminn“.

Ischinger efndi til blaðamannafundar mánudaginn 11. febrúar og lagði sig þar fram um að vekja athygli á að tvisvar eða þrisvar sinnum fleiri bandarískir þingmenn mundu sitja ráðstefnuna í ár. Í þeim hópi eru Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, og Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður og fyrrv. forsetaframbjóðandi.

Í ársskýrslu ráðstefnunnar (MSR) er Trump sakaður um að sýna „pirrandi dálæti á „sterkum mönnum“ víðs vegar um heiminn, sem veki þá hugsun að stjórn hans lifi í „heimi handan mannréttinda““. Afstaða af þessu tagi grafi undan yfirlýstu markmiði Bandaríkjastjórnar um að hvetja þær þjóðir til dáða sem vilja „reisa nýja frjálslynda skipan“ í heiminum svo að vitnað sé til orða Mikes Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í desember og setja þannig ofríkisstjórnum skorður. „Fyrir gamalgrónar aðildarþjóðir að Atlantshafssamstarfinu getur verið erfitt að kyngja hrósyrðum Trumps um ófrjálslynda leiðtoga frá Brasilíu til Filippseyja,“ segir í skýrslunni.

Þar er einnig bent á að í strategískum stefnuskjölum Bandaríkjanna séu Kínverjar og Rússar taldir ögra Bandaríkjamönnum mest. Til þess beri þó að líta að ekki eigi sama við þegar litið sé á hvers eðlis keppni milli þjóðanna þriggja sé. Bandaríkjamenn og Kínverjir deili mest um fjármál og viðskipti en Rússar og Kínverjar liti á sjálfa sig í bandalagi ofríkisstjórna gegn Vestrinu jafnvel þótt þjóðirnar stundi geopólitíska keppni hvor við aðra.

Keppnin milli Bandaríkjamanna og Rússa birtist hins vegar í gagnkvæmum ásökunum um vígbúnað. Telja skýrsluhöfundar ólíklegt að þetta ástand breytist fljótt til batnaðar.

Umræður á Münchenar-ráðstefnunni taka að þessu sinni meira mið af loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra en nokkru sinni fyrr. Þykir það til marks um að loftslagsmálin fái meiri athygli en áður á æðstu stöðum. Ischinger segir að skipuleggjendur ráðstefnunnar vilji sýna að loftslag og öryggi séu þættir sem skipti sköpum.

Þegar litið er til þáttar Evrópu í þessum stóru málum má lesa í skýrslunni að ESB sé „einstaklega illa í stakk búið við upphaf nýs stórveldakapphlaups“.

Á blaðamannafundinum sagði Ischinger: „Árið 2019 verður örlagaár fyrir Evrópusambandið“ ekki síst vegna ESB-þingkosninganna í maí og vegna þess að nýr seðlabankastjóri evru-svæðisins verði skipaður í október.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …