Home / Fréttir / Trump um utanríkismál og dálæti Rússa á honum

Trump um utanríkismál og dálæti Rússa á honum

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump sem keppir að tilnefningu sem forsetaefni repúblíkana í kosningunum í nóvember 2016 flutti jómfrúarræðu sína um utanríkismál miðvikudaginn 27. apríl. Þar lagði hann áherslu á kjörorð sitt America first og sagði að stjórn sín mundi miða allt við það. Hann sagði nauðsynlegt að taka stjórn utanríkismála föstum tökum og víkja tilviljanakenndum ákvörðunum til hliðar með markvissri stefnu og í stað óreiðu kæmi friður.

Í leiðara segir The Wall Street Journal (WSJ) að 5.000 orða ræðan standist ekki kröfur sem almennt séu gerðar í þessu tilliti. Þar hafi birst sama leiðarstefið og almennt hjá Trump að hann einn hafi gáfur og getu til að leysa úr málum en allir aðrir sé vesalingar sem geti ekki neitt, þess vegna eigi að treysta á innsæi hans og skapfestu. „Ég er sá eini – trúið mér ég þekki þá alla – ég er sá eini sem veit hvernig á að laga þetta,“ sagði hann.

Blaðið tekur undir gagnrýni Trumps á Obama og utanríkisstefnu hans þótt hann hefði kveðið of fast að orði þegar hann sagði forsetann hafa „andúð á vinum okkar og lúta óvinum okkar“ hefði hann lýst raunsannri stöðu mála.

WSJ gagnrýnir Obama harðlega fyrir skort á forystu, hann kjósi að stjórna úr aftursætinu. Þetta hafi ruglað marga bandamenn Bandaríkjanna og margir þeirra telji sig ekki lengur geta treyst skuldbindingum Bandaríkjastjórnar. Þá láti Kínverjar, Rússar og Íranir reyna á staðfestu Obama þegar þeir seilist til yfirráða í sínum heimshlutum.

Trump hafi einnig rétt fyrir sér þegar hann segi að Bandaríkjamenn eigi að fá meiri stuðning frá samstarfsaðilum sínum ef þeir endurreisa bandalög með þeim. Þannig beri Bandaríkjamenn of þunga byrði miðað við Evrópulönd þegar hugað sé að evrópskum öryggismálum jafnvel þótt þau snerti einnig varnir Bandaríkjanna gegn árásargjörnum einræðisherrum.

Í leiðara WSJ segir á hinn bóginn að ræða Trumps hafi einkennst af mótsagnakenndum fullyrðingum. Hann sagði að framkvæmd utanríkisstefnunnar mætti ekki vera of fyrirsjáanleg. Það ætti ekki að leggja spilin á borðið og segja allt. Hann sagði jafnframt að við framkvæmd utanríkisstefnunnar ætti að sýna aga, ásetning og festu.

Blaðið segir að Trump sé ekki þekktur fyrir að lúslesa efni sem fyrir hann er lagt, sé honum á annað borð kynnt eitthvert efni að baki stefnumótun. Hann höfði ekki til almennings vegna þekkingar sinnar á pólitískum álitaefnum. Bandaríkjamenn telji það þó almennt frambjóðendum til framdráttar að þeir geti sagt meira um helstu heimsvandamálin en birtist í fáorðu fréttasamtali. Enginn vafi sé á að Hillary Clinton muni hamra duglega á að Trump hafi enga burði til að verða æðsti yfirmaður Bandaríkjahers sem forseti.

WSJ segir að Trump verði ekki tilnefndur forsetaefni repúblíkana og því síður kjörinn forseti treysti kjósendur honum ekki fyrir kjarnorkuvopnum. Telur blaðið hins vegar skref í rétta átt að hann hafi flutt alvarlega ræðu um utanríkismál þótt gætt hafi mótsagna í málflutningnum.

Sé litið til Rússlands og afstöðu fjölmiðla þar til Donalds Trumps má benda á að oft er fjallað um hann af fréttastofunni Sputnik sem þjónar Vladimír Pútín og hans mönnum. Trumps er mun oftar getið í fyrirsögnum á vefsíðunni Sputniknews en Hillary Clinton.

Þar er hampað sjónarmiðum Trumps sem ríma við málflutning Kremlverja. Nú í vikunni var athyglinni sérstaklega beint að því sem Trump sagði eftir sigur sinn í prófkjörinu í New York þriðjudaginn 26. apríl: „Við munum eiga frábær samskipti við Pútín og Rússa.“ Þá hefur Sputnik sagt Trump „dauðþreyttan“ á óvild Bandaríkjastjórnar í garð Rússa. Sputnik hefur þessi ummæli eftir Trump:

„Hvers vegna beita Þjóðverjar sér ekki innan NATO vegna Úkraínu? […] Hvers vegna eru það við sem erum alltaf í forystu, hugsanlega í þriðju heimsstyrjöldina, segjum, við Rússa?“

Á sjónvarpsstöðinni Aljazeera draga menn þá niðurstöðu af fréttum rússneskra fjölmiðla undir stjórn Kremlverja að þeir styðji The Donald í kosningunum 8. nóvember í Bandaríkjunum.

Rússneska RT-fréttastofan er ekki á sama máli. Þar segir í grein álitsgjafa í vikunni: „Ýmsir meðal ráðandi afla í Bandaríkjunum trúa því að Kremlverjar styðji Donald Trump. Þeir gera það ekki. Margir Rússar hafa hins vegar áhyggjur af því að verði Hillary forseti muni þegar hörmulega slæm samskipti stjórnvalda í Moskvu og Washington enn versna.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …