Home / Fréttir / Trump segist sæta nornaveiðum og telur að sér vegið með skipun sérstaks saksóknara

Trump segist sæta nornaveiðum og telur að sér vegið með skipun sérstaks saksóknara

Robert Mueller
Robert Mueller

Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri FBI, hefur verið tilnefndur til að stjórna alríkisrannsókn á réttmæti þess að Rússar hafi skipt sér af bandarísku forsetakosningabaráttunni í fyrra. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að morgni fimmtudags 18. maí að hann sætti meiri „nornaveiðum“ en nokkur annar stjórnmálamaður í sögu Bandaríkjanna.

Rod Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti skipun Muellers með þeim orðum miðvikudaginn 17. maí að almannahagsmunir krefðust þess að þessari rannsókn yrði stjórnað af manni sem nyti meira sjálfstæðis en almennt tíðkaðist innan bandaríska stjórnkerfisins.

Eftir að hafa verið skipaður sagði Mueller, sem var forstjóri FBI í 12 ár, í stuttri yfirlýsingu að hann tæki þetta ábyrgðarstarf að sér og mundi gegna því eftir bestu getu.

Tilkynning dómsmálaráðuneytisins kom á óvart þegar hún birtist. Áður hafði Donald Trump verið sakaður um að hafa beitt sér gegn því að FBI, bandaríska alríkislögreglan, rannsakaði tengsl milli Michaels Flynns, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa síns, og Rússa.

Eftir að dómsmálaráðuneytið birti tilkynningu sína reyndu embættismenn Trumps að gera sem minnst úr ákvörðuninni eða þýðingu hennar segir The Washington Post (WP). Þeir segja að Rosenstein hafi haft samband við Don McGahn, ráðgjafa Trumps, kl. 17.30 að Washington-tíma til að segja honum frá að ákvörðunin um skipun Muellers yrði kynnt opinberlega 30 mínútum síðar. Háttsettur starfsmaður í forsetaskrifstofunni sagði fjölmiðlamönnum að Trump væri „ótrúlega rólegur og yfirvegaður“. Síðan barst þessi fréttatilkynning frá Hvíta húsinu í nafni forsetans: „Nákvæm rannsókn mun staðfesta það sem þegar er vitað – það var ekkert leynimakk af hálfu kosningastjórnar minnar við nokkurn erlendan aðila. Ég vænti þess að þessu máli ljúki fljótt.“

Að morgni fimmtudags 18. maí greip forsetinn til Twitters og sagði: „Þetta eru mestu einstöku nornaveiðar á stjórnmálamanni í bandarískri sögu. – Þrátt fyrir öll lögbrotin í kosningabaráttu Clinton og stjórn Obama var aldrei skipaður sérstakur saksóknari.“

Fréttaskýrendur benda á að ekki hefði verið skipaður sérstakur saksóknari hefði Trump ekki rekið James Comey, forstjóra FBI, (að sögn eftir að hafa beðið hann að hætta við rannsókn FBI á Michael Flynn) og síðan játað að hafa gert það með vísan til umtalsins um Rússa-tengslin. Með þessu er sagt að forsetinn geti sjálfum sér um kennt, gagnrýni hann skipun sérstaks saksóknara. Reynsluleysi hans og fljótfærni komi honum sjálfum í koll.

Þá segja álitsgjafar að til skamms tíma kunni tilkoma sérstaka saksóknarans að skapa repúblíkönum og forsetanum svigrúm til að átta sig á stöðunni. Þeir geti boðið sérstaka saksóknaranum samstarf til að dreifa athygli frá mörgum erfiðum spurningum sem enn sé ósvarað. Til hins sé þó að líta að til lengri tíma steðji nú meiri hætta að Trump forseta vegna Rússa-hneykslisins en var áður en Mueller tók að sér stjórn rannsóknar á því.

Risastórt svart ský hvílir yfir Hvíta húsinu þar til Mueller lýkur rannsókn sinni segir WP. Hver veit hve hátt upp rannsókn hans nær? Þá má einnig ímynda sér þá ólíklegu stöðu að einhver nálægur Trump kjósi að bera vitni verði honum boðið það til að losna undan fangelsisdómi. Mueller nýtur svo mikillar virðingar að reyni einhver að gera hann marklausan eða þó ekki væri nema að minnka svigrúm hans kann það að leiða til stjórnskipunarkreppu. Því má segja að nú hafi vald Trumps yfir eigin örlögum sem forseti verið þrengt.

Mueller ræður ferðinni í Rússa-rannsókninni. Rosenstein segir í umboði sínu til Muellers að hann eigi að rannsaka sérhver tengsl og/eða samhæfingu milli rússneskra stjórnvalda og einstaklinga sem tengdust baráttu Donalds Trumps forseta. Auk þess eigi hann að kanna sérhvert mál sem komi í ljós við rannsóknina. Mueller hefur einnig heimild til að rannsaka hugsanlegar tilraunir til að hindra rannsókn hans. Í þessu felst að hann getur túlkað umboð sitt á rúman hátt telji hann það nauðsynlegt. Í því kann einnig að felast að hann reyni að upplýsa hver hafi lekið upplýsingum í tengslum við Rússa-rannsókn FBI. Hann hefur þann tíma til rannsóknarinnar sem hann þarf og hefur heimild til að gefa út ákæru vegna alríkisbrota sem upplýst verða með rannsókninni.

George W. Bush Bandaríkjaforseti skipaði Mueller forstjóra FBI árið 2001. Nokkrum vikum síðar var árásin gerð á tvíburaturnana í New York og Pentagon í Washington. Hann stjórnaði FBI á þann veg í 12 ár að alríkislögreglan varð í forystu bandarískra stofnana í baráttunni við hryðjuverkamenn.

Þegar hann hafði gegnt embættinu í 10 ára skipunartíma sinn þótti hann hafa staðið sig svo vel að Barack Obama Bandaríkjaforseti bað hann að gegna forstjórastöðunni enn í tvö ár. Árið 2013 tók James Comey við af honum en Donald Trump rak hann fyrirvaralaust á dögunum. Varaforstjóri FBI veitir alríkislögreglunni forystu þar til Trump skipar eftirmann Comeys.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …