Á bandarísku vefsíðunni Politico segir föstudaginn 31. júlí að hugmynd Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að fresta forsetakosningunum sem fram eiga að fara í nóvember 2020 eða þá að hann neiti ef til vill að samþykkja úrslit kosninganna ryðji hratt öðrum málum til hliðar í kosningabaráttunni, á lokastigi baráttunnar verði auk viðbragða vegna COVID-19-faraldursins og efnahagsvandræða tekist á um grundvallar lýðræðisreglur samfélagsins.
Bent er á að forsetinn hafi ekkert vald til að hrófla við kjördeginum þótt hann hafi hreyft þeirri hugmynd fimmtudaginn 30. júlí. Á hinn bóginn séu demókratar nú þegar teknir til við að búa sig undir að repúblikanar véfengi utankjörstaðaratkvæði og niðurstöður talninga á kjördag. Full ástæða sé fyrir þá til að gera það: forsetinn hafi hvað eftir annað varað við „kosningasvindli“, nýlega neitaði hann að svara spurningu um hvort hann myndi una úrslitunum.
Segir Politico að boðskapur forsetans bendi af auknum þunga til þess að hann kunni að efast um réttmæti úrslitanna á þessu ári þegar hann hafi náð algjörri stjórn á valdamiðstöðvum repúblikana í einstökum ríkjum og fyrir landið allt auk þess sem dómsmálaráðherrann í stjórn hans hefur tekið undir órökstuddar fullyrðingar Trumps um póstkosningasvindl.
Útspil Trumps vegna kosninganna vekur grunsemdir meðal andstæðinga hans í flokki demókrata eins og kemur fram í þessum orðum sem Politco hefur eftir Pete Giangreco, sem unnið hefur að skipulagi níu forsetakosninga fyrir demókrata:
„Í mínum huga er ekki neinn vafi um hvert hann stefnir. Hann vill fresta kosningunum vegna þess að yrði kosið í dag mundi hann tapa. Því lengra sem líður þeim mun betra fyrir hann … Hann vill þess vegna meiri tíma til að fikta við kerfið svo að hann komi einhvern veginn sem sigurvegari út úr því.“
Þegar Trump barðist fyrir að verða forseti bar hann oft á borð órökstuddar fullyrðingar um víðtækt kosningasvindl. Hann krafðist endurtekningar þegar hann tapaði fyrir Ted Cruz í Iowa-prófkjörinu árið 2016 og bar fram ásaknir um „alvarleg kosningasvik í Virginíu, New Hamspshire og Kaliforníu“ þegar hann tapaði í þessum ríkjum í sjálfum forsetakosningunum í nóvember 2016.
Trump er nú langt á eftir Joe Biden, frambjóðanda demókrata, í forsetakosningunum í nóvember 2020, eftir innan við 100 daga. Hvorki í ríkjum sem kunna að ráða úrslitum né í landinu öllu hefur Trump roð við Biden sé tekið mið af niðurstöðum kannanna.
Fyrir skömmu ræddi Chris Wallace á Fox News við Trump og þá neitaði forsetinn að svara afdráttarlaust hvort hann mundi sætta sig við kosningaúrslitin: „Við skulum sjá,“ sagði hann.
Eftir að hafa hreyft hugmyndinni um frestun kosninganna á Twitter fyrri hluta fimmtudags 31. júlí sagði Trump síðdegis að ekkert slíkt vekti þó fyrir sér en aldrei væri þó unnt að útiloka neitt.
„Vil ég að deginum verði breytt? Nei. En ég vil ekki verða vitni að óheiðarlegum kosningum,“ sagði Trump við blaðamenn.
Fyrir utan að segja þetta brölt sýna hræðslu Trumps við að tapa segja demókratar að það þjóni einnig þeim tilgangi að draga athygli frá nýjum, ömurlegum hagtölum.
Kosningatal Trumps kallaði ekki síður á viðbrögð frá repúblikönum en demókrötum. Strax fimmtudaginn 30. júlí snerust þeir harðar gegn öllum frestunarhugmyndum en menn eiga almennt að venjast þegar um svör úr þessari átt við orðum forsetans er að ræða. Forráðamenn flokksins standa ekki að baki Trump vegna hugmyndar hans um kosningafrestun.
Repúblikaninn Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, sagði: „Hann getur kynnt allar hugmyndir sem hann vill. Lögin eru skýr. Við göngum til kosninga sem eru lögmætar, trúverðugar og með sama hætti og ávallt hefur verið gert.“
Kevin McCarthy, leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, sagðist einnig andvígur frestun kjördags. „Það kemur alls ekki til greina að kjósa á öðrum degi en okkur ber,“ sagði McCarthy við blaðamenn.
Þegar Hogan Gidley, blaðafulltrúi kosningastjórnar Trumps, var spurður hvað vekti fyrir forsetanum með þessu tali um frestun kjördags, sagði hann að forsetinn vildi einfaldlega vekja máls á þessu, hann boðaði ekki neina aðgerð.
„Forsetinn er aðeins að beina athygli að ringulreiðinni sem demókratar hafa skapað með því að krefjast póstkosninga,“ las Gidley af blaði. „Allsherjar póstkosning leiðir til ringulreiðar og alvarlegra tafa á úrslitum eins og gerðist í prófkjöri þingmanna í New York þar sem meira en mánuður er liðinn án þess að við vitum um sigurvegarann.“