Home / Fréttir / Trump svarað af Stoltenberg og Evrópumönnum

Trump svarað af Stoltenberg og Evrópumönnum

Breskir hermenn við æfingar í Eistlandi 10. febrúar 2024.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að ummæli Donald Trumps kunni að stofna lífi Bandaríkjmanna og Evrópubúa í hættu. NATO sé „tilbúið og fært um að verja öll bandalagsríkin“. Þá hafa fleiri brugðist orðum Trumps og gagnrýnt þau.

Framkvæmdastjóri NATO sendi frá sér yfirlýsingu sunnudaginn 11. febrúar en daginn áður hafði Trump sagt að hann hvetti til þess að Rússar réðust á þau NATO-ríki sem stæðu ekki í skilum í samræmi við fjárskuldbindingar sínar gagnvart varnarbandalaginu.

Stoltenberg sagði í yfirlýsingu: „Allar hugrenningar um að bandalagsþjóðirnar muni ekki verja hverja aðra grafa undan öllu öryggi okkar, þar með talið Bandaríkjanna, og auka hættu fyrir bandaríska og evrópska hermenn. Ég vænti þess, án tillits til hver vinnur forsetakosningarnar, að þá verði Bandaríkin áfram sterkt og tryggt bandalagsríki innan NATO.“

Trump sagði á kosningafundi í Suður-Karólínu að kvöldi laugardagsins 10. febrúar að hann hefði svarað leiðtoga „stórs lands“ í Evrópu sem leitaði svara hjá honum um hvað gerðist ef landið stæði ekki í skilum innan NATO. Trump sagðist ekki ætla að gera neitt en hann myndi hvetja Rússa til að ráðast á landið.

Pólski varnarmálaráðherrann, Władysław Kosiniak-Kamysz, skrifaði á X: „Kjörorð NATO „einn fyrir alla, allir fyrir einn“ er áþreifanleg skuldbinding“.

Hann bætti við: „Að grafa undan trúverðugleika bandalagsríkis jafngildir því að veikja allt NATO. Engin kosningabarátta afsakar leik að öryggi bandalagsins.“

Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, sagði við frönsku sjónvarpsstöðina LCI að ummæli Trumps um hernaðarútgjöld NATO-ríkja væru ekki ný af nálinni. „Við höfum heyrt þetta áður… Ekkert er nýtt undir sólinni,“ sagði hann.

Breton bætti við að evrópskir leiðtogar áttuðu sig á því að ESB þyrfti að auka eigin hernaðarútgjöld og getu til fullveldisvarna. „Við getum ekki kastað upp mynt um öryggi okkar á fjögurra ára fresti, allt eftir úrslitum í hinum eða þessum kosningum, það er forsetakosningum í Bandaríkjunum,“ sagði hann.

Hann taldi ástæðu til að efast um þá sögu sem Trump sagði í ræðu sinni um samskipti sín við leiðtoga „stórs lands“ sem stæði ekki í skilum við NATO. Trump sagðist hvetja Rússa til að ráðast á slíkt land.

Breton sagði við LCI að frásögn Trumps væri röng. „Minni hans er kannski dálítið farið að gefa sig, þetta var í raun kona og ekki forseti lands heldur Evrópusambandsins,“ sagði Breton og vísaði til Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og samtals hennar við Trump. árið 2020.

Í London skrifaði Peter Ricketts, þingmaður í lávarðadeildinni, fyrrv. fastafulltrúi Breta hjá NATO í Brussel, á X: „Ekki mjög trúlegt að forseti „stórs“ Evrópulands hafi snúið sér með þetta til hans (eða kallað hann Sir!). Trump virðist líta á NATO eins og sveitaklúbb: Þú borgar 2% af landsframleiðslu þinni til Bandaríkjanna sem síðan veita varnarþjónustu.“

 

 

Jan Lipavský, utanríkisráðherra Tékklands, sagði: „NATO hefur nú sterkari stöðu en nokkru sinni, bæði vegna sterkra tengsla yfir Atlantshaf og vegna fælingar- og varnarverkefna sem evrópskir bandamenn sinna. Frammi fyrir stærstu ógninni frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar aukum við fjárveitingar til varnarmála og aukum styrk okkar og getu sem í mörgu tilliti má rekja til Bandaríkjanna.“

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …