
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að John R. Bolton taki við embætti þjóðaröryggisráðgjafa af H. R. McMaster hershöfðingja 9. apríl. Verður hann þriðji þjóðaröryggisráðgjafi Trumps á 14 mánuðum. Bolton starfaði fyrir forsetana Ronald Reagan og George H.W. Bush og gegndi síðan stöðu sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í forsetatíð George W. Bush frá ágúst 2005 til desember 2006.
Eftir að Bolton lét af opinberum störfum birti hann æviminningar sínar undir heitinu: Surrender Is Not An Option, Uppgjöf er ekki kostur. Hann hefur einnig starfað fyrir ýmsar hægrisinnaðar hugveitur og lýst skoðunum á Fox News– sjónvarpsstöðinni.
Bolton er kunnur fyrir afdráttarlaus viðhorf sín og andstöðu gegn Íran og Norður-Kóreu. Hann hefur hvatt til hernaðaraðgerða gegn löndunum.
Á sínum tíma studdi Bolton eindregið innrásina í Írak og hefur hann verið sakaður um að afflytja leynilegar upplýsingar um eign Íraka á gjöreyðingarvopnum en hætta af þeim var meginástæða innrásarinnar árið 2003.
Bolton hefur gagnrýnt stjórnarhætti í Rússlandi og snúist af hörku gegn þeim sem fullyrða að leynimakk hafi verið milli kosningastjórnar Trumps og útsendara Kremlverja árið 2016 þótt hann telji að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna. Þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti boðaði fyrir skömmu að hann ætlaði á láta smíða ný kjarnorkuvopn sagði Bolton á Twitter að það yrði að svara „nýjum kjarnorkueldflaugum Rússa á strategískan hátt til að sýna bandamönnum okkar í Evrópu að við látum ekki Rússa troða Bandaríkjamönnum eða bandamönnum þeirra um tær“.
Á árinu 2005 var Bolton um nokkurt skeið á Írlandi og beitti sér þar gegn því að Írar samþykktu ferkari samruna innan Evrópusambandsins. Síðar hallmælti hann Lissabon-sáttmálanum.
Eftir að Trump kynnti afsögn McMasters og að Bolton tæki við af honum hefur Bolton sagt að ekki eigi að líta þannig á að persónulegar skoðanir sem hann hafi lýst eftir að hann lét af opinberum störfum ráði þegar hann taki við opinberu embætti að nýju, þá ráði stefna forsetans og Bandaríkjastjórnar, hlutverk sitt verði að veita ráð innan ramma hennar. Í samtali við Fox News sagði hann: „Í hreinskilni sagt eru allar einkaskoðanir mínar nú að baki.“