
Eftir að Michael Flynn sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta lagði forsetinn áherslu á að skipa sem fyrst mann í hans stað. Sá sem hann vildi helst gaf ekki kost á sér. Nú hefur hann fundið nýjan háttsettan herforingja í embættið.
Herbert Raymond McMaster, 54 ára hershöfðingi, samþykkti mánudaginn 20. febrúar að taka að sér embætti þjóðaröryggisráðgjafa á fundi með Donald Trump á setri hans í Mar-a-Lago í Flórída. Var þá rétt vika liðin frá afsögn Flynns.
Forsetinn sagði að H.R McMaster væri ákaflega vel að sér og með mikla reynslu. Hershöfðinginn hefur fengið fjölda heiðursmerkja fyrir framgöngu sína í landhernum auk þess að vera viðurkenndur og mikils metinn herfræðingur. Gjarnan er vitnað til orða sem hann mælti við undirmenn sína í Írak og sagði: „Í hvert sinn sem þið sýnið Íraka óvirðingu, leggið þið óvininum lið.“
McMaster er höfundur margra mikils virtra grundvallarrita um pólitísk mistök sem leiddu til ósigurs Bandaríkjamanna í Víetnam. Þá hefur hann einnig greint og birt ritgerðir um mistök Bush-stjórnarinnar í Írak-stríðinu. Árið 2014 taldi tímaritið Time hann í hópi 100 áhrifamestu manna heims. Að Trump skyldi tilnefna hann sem ráðgjafa sinn kom mörgum á óvart vegna þess að hershöfðinginn er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum gagnvart sér æðri mönnum.
McMaster er nú yfirmaður miðstöðvar bandaríska landhersins sem skipuleggur innviði hersins svo að þeir nýtist sem best við breytilegar aðstæður í samvinnu við aðrar stofnanir. Hann hefur gegnt ýmsum lykilstörfum innan landhersins undanfarin 25 ár.
Þingmenn brugðust vel við ákvörðun forsetans. Repúblíkaninn John McCain öldungadeildarþingmaður, sem oft gagnrýnir Trump, sagði „einstaklega vel valið“ að gera McMaster að öryggisráðgjafa.