Home / Fréttir / Trump segist vona að Rússar finni 30.000 tölvubréf Hillary Clinton – Rússar náðu tölvubréfum demókrata

Trump segist vona að Rússar finni 30.000 tölvubréf Hillary Clinton – Rússar náðu tölvubréfum demókrata

 

 

cyeberhacking1_3077109bDonald Trump, forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríkjunum, sagði miðvikudaginn 27. júlí að hann vonaði að Rússar hefðu brotist inn í tölvupósthólf Hillary Clinton og hvatti þannig erlend ríki til að stunda tölvunjósnir í pósthólfi hennar á meðan hún var utanríkisráðherra.

„Rússar ef þið hlustið vona ég að ykkur takist að finna tölvubréfin 30.000 sem eru týnd,“ sagði Trump á blaðamannafundi og horfði beint í myndavélarnar. „Ég er viss um að fjölmiðlamenn okkar mundu meta það mjög mikils.“

Orð Trumps féllu daginn eftir bandarískar njósnastofnanir sögðu embættismönnum í Hvíta húsinu í Washington, skrifstofu Bandaríkjaforseta, að þeir væru „nær fullvissir“ um að rússnesk stjórnvöld hefðu staðið að baki stuldi á tölvubréfum frá flokksstjórn demókrata. Frá því var skýrt í The New York Times (NYT) miðvikudaginn 27. júlí.

Bandarísku njósnararnir hafa ekki getað sannreynt hvort um ásetningsverk hafi verið að ræða af hálfu Rússa, þeir hafi vísvitandi brotist inn í tölvukerfi Demókrataflokksins eða um venjubundnar tölvunjósnir hafi verið að ræða sem stjórnarstofnanir margra ríkja, þ. á m. Bandaríkjanna, stunda um heim allan. Það sé með öðrum orðum óvíst hvort Rússar leggi sig fram um að hafa áhrif á forsetakosningabaráttuna árið 2016.

WikiLeaks birti tölvubréfin en NYT segir að Julian Assange sem stofnaði lekavefinn hafi sagst ætla að spilla fyrir Hillary Clinton í kosningabaráttu hennar. Óljóst er hvernig bréfin komust í hendur WikiLeaks. Mörg þeirra voru birt í fjölmiðlum áður en bréfin sáust á lekavefnum og einhver sem kallaði sig Guccifer 2.0 birti bréfin einnig, þeir sem hafa rannsakað málið telja nú að þar sé um að ræða starfsmann GRU, leyniþjónustu rússneska hersins.

Seinna á blaðamannafundinum var Trump spurður hvort hann væri virkilega að hvetja erlent ríki að brjótast inn í tölvupósthólf á einkanetþjóni Hillary Clinton eða að minnsta kosti að blanda sér í bandarísku kosningabaráttuna. Trump leiddi spurninguna hjá sér en sagði: „Það er undir forsetanum komið“ og bætti svo við „þegiðu“ við konuna sem spurði. „Látum forsetann tala við þá.“

Talsmenn Hillary Clinton sökuðu Trump þegar um að hvetja Rússa til njósna gagnvart Bandaríkjunum og til að blanda sér í bandarísk innanríkismál.

„Þetta er í fyrsta sinn sem aðalforsetaframbjóðandi hefur beinlínis hvatt erlent ríki til að stunda njósnir gagnvart pólitískum andstæðingi sínum,“ sagði Jake Sullivan, helsti ráðgjafi Clinton um utanríkismál. „Þetta hefur breyst úr því að vera furðumál í að verða pólitískt viðfangsefni, í að snerta þjóðaröryggi.“

Brendan Buck, talsmaður repúblíkanans Pauls D. Ryans, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, svaraði ummælum Trumps með því að gagnrýna háttalag Rússa.

„Af Rússum stafar hnattræn ógn undir forystu undirföruls óþokka. Pútín ætti að halda sig frá þessum kosningum,“ sagði Buck.

Trump hefur almennt hafnað fullyrðingum um að Rússar standi að baki innbrotinu í tölvupósthólf demókrata sem samsæriskenningum – hann endurtók þá skoðun þegar hann sagði tölvuþrjótinn „líklega ekki Rússa“.

Á blaðamannafundinum sem haldinn var á einum af golfvöllum Trumps í Flórída neitaði hann afdráttarlaust að hafa samband við Pútín og hvetja hann til að blanda sér ekki í bandarísku forsetakosningarnar.

„Ég ætla ekki að segja Pútín fyrir verkum,“ sagði Trump. „Hvers vegna ætti ég að segja Pútín fyrir verkum?“

Stæðu Rússar eða önnur erlend ríkisstjórn að baki tölvuárásinni sýndi það aðeins hve litla virðingu aðrar þjóðir hefðu fyrir núverandi stjórn Bandaríkjanna.

„Trump forseti yrði mun betri fyrir samskipti Bandaríkjanna og Rússlands“ heldur en Hillary Clinton forseti, sagði Trump. „Ég tel hann ekki bera virðingu fyrir Clinton.“

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …