Home / Fréttir / Trump segist vilja að Mattis hætti strax 1. janúar

Trump segist vilja að Mattis hætti strax 1. janúar

 

Jim Mattis og Donald Trump
Jim Mattis og Donald Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti er svo reiður yfir gagnrýninni á sig og stjórnarhætti sína eftir að Jim Mattis varnarmálaráðherra tilkynnti afsögn sína að hann hefur sagt við embættismenn sína að hann vilji að Mattis hverfi úr ráðherrastólnum 1. janúar 2019 í stað 28. febrúar eins Mattis hafði ætlað sér. Uppfært: Í sömu andrá og þessi frétt var sett inn á vefsíðuna var sagt frá færslu Trumps á Twitter þar sem hann segir að staðgengill Mattis, Patrick M. Shanahan, verði starfandi varnarmálaráðherra frá 1. janúar  þar til hann hafi fundið nýjan mann til að skipa í embættið.

Í frétt The New York Times um þessar sviptingar vegna varnarmálaráðherraembættisins segir að forsetinn sé þekktur fyrir að hreyfa hugmyndum við aðstoðarmenn sína án þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Aðstoðarmennirnir segja hins vegar að Trump sé ævareiður vegna þess að afsagnarbréf Mattis þar sem hann gagnrýnir forsetann fyrir fálæti hans gagnvart bandamönnum Bandaríkjanna annars vegar og dálæti á einræðisherrum hins vegar hafi kveikt margra daga neikvæða umræðu um sig í fjölmiðlum.

Þegar Trump tilkynnti að Mattis hyrfi úr embætti 28. febrúar 2019 fór hann lofsamlegum orðum um varnarmálaráðherrann á Twitter. Einn aðstoðarmaður sagði að forsetinn hefði verið með afsagnarbréfið í höndunum þegar hann hrósaði Mattis. Trump áttaði sig hreinlega ekki á því hve kröftug andstaða við stefnu hans fólst í bréfi Mattis.

Reiði forsetans er sögð hafa magnast dag frá degi. Laugardaginn 23. desember skaut hann á Mattis á Twitter þegar hann sagði: „þegar Obama rak Jim Mattis á vansæmandi hátt veitti ég honum annað tækifæri. Sumum fannst það óþarfi, mér fannst það ekki.“

Mattis hætti sem fjögurra stjörnu hershöfðingi eftir að hafa stjórnað því sem Bandaríkjastjórn kallar Central Command, það er herstjórn sem nær yfir Mið-Austurlönd og Suðvestur-Asíu frá 2010 til 2013. Obama batt enda á störf hans við herstjórnina vegna þess að hann var talinn of herskár í garð Írana.

Partrick M. Shanahan er fyrrverandi yfirmaður hjá Boeing. Aðstoðarmenn Trumps segja að forsetinn kunni að meta hann því að hann segi forsetann oft hafa rétt fyrir sér þegar hann kvartar undan útgjöldum varnarmálaráðuneytisins.

 

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …