Home / Fréttir / Trump segist maður laga og reglu – reiði vegna fyrirvara hans gagnvart NATO-ríkjum

Trump segist maður laga og reglu – reiði vegna fyrirvara hans gagnvart NATO-ríkjum

 

 

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump, forsetaefni repúblíkana í Bandaríkjunum, flutti langa lokaræðu á flokksþingi repúblíkana að kvöldi fimmtudags 21. júlí þar sem hann veittist að ráðandi stjórnmálaöflum, ýtti undir ótta kjósenda við glæpi, frjáls viðskipti og ólöglega innflytjendur. Hann lofaði að koma lögum yfir ofbeldis- og glæpamenn og hefja Bandaríkin að nýju til vegs og virðingar.

Hann réðst af meiri hörku en áður á Hillary Clinton, forsetaefni demókrata. Þegar hann nefndi nýleg dæmi um skotárásir á lögreglumenn í Bandaríkjunum sagði hann: „Enginn þekkir kerfið betur en ég þess vegna er ég hinn eini sem get kippt þessu í lag.“

Hér var í gær birtur útdráttur úr viðtali við Trump í The New York Times. Þar setti hann fyrirvara við þátttöku Bandaríkjamanna í varnarviðbrögðum yrði ráðist á eitthvert aðildarríki NATO. Fyrst yrði að kanna hvort viðkomandi ríki hefði staðið við skuldbindingar sínar Bandaríkjunum,

Ummæli Trumps vöktu undrun og reiði í Evrópu og Bandaríkjunum. Forráðamenn repúblíkana bentu á að ummælin stönguðust á við stefnu flokksins sem mótuð var á flokksþinginu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði ákvæði sáttmála bandalagsins skýr: „Við verndum hver annan.“

Hann sagðist ekki vilja blanda sér í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum en hafa yrði í huga að tvær heimsstyrjaldir hefðu sannað að friður í Evrópu skipti einnig miklu fyrir öryggi Bandaríkjanna.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði að ESB yrði að leggja sig meira fram á sviði varnarmála en Bandaríkjamenn yrðu að standa með bandamönnum sínum. Í hættulegum heimi líðandi stundar þyrftu allir á vinum að halda.

Í 5. grein Atlantshafssáttmálans, stofnskrá NATO frá 1949, segir að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll. Greinin hefur einu sinni verið virkjuð, þegar ráðist var á Bandaríkjaríkin 11. september 2001.

Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings, stuðningsmaður Trumps, sagðist alfarið ósammála orðum Trumps. McConnell lýsti NATO sem því hernaðarbandalagi sem náð hefði mestum árangri í veraldarsögunni.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði skuldbindingar Bandaríkjamanna gagnvart NATO:

„Þessi ríkisstjórn er engu frábrugðin öllum ríkisstjórnum, repúblíkana og demókrata, frá 1949 að því leyti að hún stendur heilshugar að baki NATO og öryggisskuldbindingum sínum í samræmi við 5. greinina sem er sannkallaður hornsteinn aðildar okkar og samstarfs í NATO.“

Í áranna rás hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum oft kvartað undan því að mörg aðildarríki NATO leggi ekki nógu mikið af hendi rakna til bandalagsins. Bandaríkjamenn standa undir meira en 70% af öllum varnarútgjöldum NATO og aðeins fjögur aðildarríki – Bretland, Eistland, Grikkland og Pólland – fullnægja samþykkt NATO um að útgjöld til varnarmála nemi 2% af vergri landsframleiðslu hvers aðildarríkis, þau eru 28.

Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, sagði á Twitter að þjóð sín væri meðal fárra NATO-þjóða sem stæði við skuldbindingar sínar um hlutfall varnarútgjalda og Eistlendingar hefðu fyrirvaralaust barist við hlið Bandaríkjamanna í Afganistan.

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens, sagði að Litháar mundu treysta á Bandaríkjamenn hver sem yrði forseti þeirra.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …