Home / Fréttir / Trump segist hvetja til árásar á skuldug NATO-ríki

Trump segist hvetja til árásar á skuldug NATO-ríki

Donald Trump á kosningafundi.

Moskvumenn mega „gera hvað í fjandanum sem þeir vilja“ við þá bandamenn Bandaríkjanna í NATO sem standa ekki við greiðsluskuldbindingar sínar gagnvart bandalaginu sagði Donald Trump á fundi laugardaginn 10. febrúar þar sem hann hvatti kjósendur í Suður-Karólínu til að veita sér brautargengi í forkosningum.

Donald Trump sagði að hann myndi „hvetja“ Rússa til að ráðast á NATO-ríki sem ekki greiddu reikninga sína sem til bandalagsins. Hann minnti á að í forsetatíð sinni hefði hann sagt að Bandaríkjamenn myndu ekki vernda NATO-aðildarríki sem næði ekki markmiði bandalagsins um varnarútgjöld.

Hann minntist þess að leiðtogi „stórs lands“ hefði varpað fram þeirri tilgátu að hann stæði ekki við fjárhagslegar skuldbindingar sínar innan NATO og síðan réðust Rússar á land hans.

Trump sagði að leiðtoginn hefði spurt sig hvort Bandaríkjamenn myndu koma landi sínu til hjálpar ef þetta gerðist. Trump sagðist hafa svarað:

„Þú borgaðir ekki? Þú ert brotlegur?… Nei ég myndi ekki vernda þig, í raun myndi ég hvetja þá til að gera hvað sem þeir vilja. Þú verður að borga.“

Vegna þessara orða Trumps sagði talsmaður Hvíta hússins  að forsetinn fyrrverandi væri „að hvetja morðóð stjórnvöld til árása á nánustu bandamenn okkar“. Ummælin væru „hræðileg og ósvífin“.

Hann bætti við að yfirlýsingin „stefndi bandarísku þjóðaröryggi, alþjóðlegum stöðugleika og efnahag okkar heima fyrir í hættu“.

Trump hefur lengi verið gagnrýninn á NATO og það sem hann lítur á sem óhóflega fjárhagslega byrði fyrir Bandaríkin til að tryggja varnir 30 annarra þjóða.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …